Feðginin Jenný og Benedikt þjálfa saman – Viðtal

„Samstarf okkar gengur mjög vel, hann byrjaði á því að kenna mér og hjálpa mér aðeins að byrja, en ég er farin að gera þetta sjálf núna og hann fylgist með,“ segir Jenný Lovísa Benediktsdóttir í samtali við Hafnarfréttir um samstarf hennar og pabba hennar, Benedikts Guðmundssonar.

Feðginin þjálfa saman körfubolta hjá KR en Jenný þjálfar minnibolta 8 ára stúlkna sem og byrjendaflokk stúlkna og Benedikt er aðstoðarþjálfari hennar í báðum flokkum.

Fyrr á árinu tók Benedikt við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá KR eftir að hafa þjálfað hjá Þór Akureyri síðastliðin tvö ár og þar áður þjálfaði hann Þór Þorlákshöfn frá árinu 2010.

Aðspurð segir Jenný að pabbi sinn hafi ekki beint smitað sig af þjálfararstarfinu. „Hann smitaði mig klárlega með að æfa körfu,“ segir hún en Jenný æfir núna í KR og hefur spilað með yngri landsliðum Íslands í körfubolta.

Jenný Lovísa kann vel við sig í þjálfuninni. „Þetta er mjög skemmtilegt starf, ég gæti alveg hugsað mér að vinna við þetta í frammtíðinni en við sjáum bara hvað gerist,“ segir hún að lokum.