Láttu mig vita þegar þú ert komin

Steinar Lúðvíksson

Öll upplifum við þá þörf að vilja vita hvað er að gerast hjá vinum okkar og fjölskyldu. Þau geta verið á keyrslu í slæmri færð og er það þessi staðfesting um að allt sé í lagi sem við sækjumst eftir því okkur er umhugað um þau. Upplýsingar um hvar þau eru, hvernig gekk, hvort einhver vandamál hafi komið upp því til staðfestingar um að áhyggjur þínar voru af ástæðulausu. Einnig viltu að þau láti vita ef þau hafa átt viðkomu hjá vinum eða skyldmennum á leiðinni eða seinkar af öðrum ástæðum.

Auðvitað viljum við vita þegar þau koma heim en ekki þegar þau ætla aftur til vinnu. Þetta er eitthvað sem ég þekki vel þar sem kærasta mín starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún hefur þurft að keyra í öllum veðrum til vinnu og er „láttu mig vita þegar þú ert komin“ mjög algeng setning í okkar samskiptum.

Forsendurnar í stjórnsýslunni þegar kemur að kjörnum fulltrúum eru líkar að ákveðnu leyti, því okkur er umhugað um sveitarfélagið okkar. Fulltrúar eru kjörnir til starfa í umboði kjósenda til fjögurra ára í senn og finnst okkur sjálfsagt að við séum látin vita og við séum upplýst um gang mála í stjórnsýslunni. Því þegar öllu er á botninn hvolft er þetta sveitarfélagið okkar og þau starfa í umboði okkar. Þegar kemur að stjórnsýslunni þurfum við einnig þennan létti yfir að allt sé í lagi, að verið sé að vinna í hlutunum, hvar málin standa og að íbúar fái að kjósa um stóru málefnin o.s.frv. Því það er alltaf leiðinlegt að vera sá sem fréttir hlutina síðast. Þessar vinnuaðferðir eru eitthvað sem ætti að teljast eðlilegir starfshættir hjá kjörnum fulltrúum.

Við hjá D-listanum teljum að þessa hluti þurfi að bæta. Algjört gagnsæi þarf að vera á öllum stigum stjórnsýslunnar. Fyrir okkur er ekkert eðlilegra en að vinnubrögðin séu vönduð og stjórnsýslan sé fagleg svo jafnræðis sé gætt í allri ákvarðanatöku. Einnig teljum við nauðsynlegt að íbúum sveitarfélagsins sé haldið upplýstum á öllu kjörtímabilinu með öllum þeim upplýsingaveitum sem í boði eru árið 2018, opnu bókhaldi og reglulegum íbúafundum. Við hjá D-listanum viljum að íbúar sveitarfélagsins viti þegar við erum komin heim en ekki aðeins þegar við förum aftur til vinnu.

Steinar Lúðvíksson
Frambjóðandi í 4.sæti D listans í Sveitarfélaginu Ölfusi