Hugmyndir um erlenda fjárfesta að uppbyggingu hafnarinnar

Sveitarfélagið Ölfus á í viðræðum við erlenda fjárfesta við fjármögnum uppbyggingar á hafnarmannvirkjum í Þorlákshöfn. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag en blaðið hefur heimildir fyrir því að í hópi fjárfesta sem sveitarfélagið ræði nú við séu kínverskir aðilar.

„Ég get ekki tjáð mig um það á þessum tímapunkti hvaða aðila við erum í viðræðum við um mögulega aðkomu að uppbyggingunni en áhuginn er sannarlega til staðar,“ segir Elliði vignisson í frétt Morgunblaðsins.

„Það er ljóst að við viljum ráðast í framkvæmdir sem kosta munu að lágmarki 6 til 8 milljarða. Ölfusið er eitt mest spennandi svæði á landinu hvað framtíðartækifæri varðar. Við höfum stærsta jarðorkusvæði á landinu, stærstu ferskvatnslindirnar, nálægð við alþjóðaflugvöll, endalaust landsvæði og að sjálfsögðu nálægð við markaðssvæði borgarinnar. Þegar þetta kemur allt saman má ljóst vera að frekari uppbygging hafnarinnar leysir úr læðingi krafta sem við höfum ekki áður þekkt,“ segir Elliði.

Elliði segir að siglingar Mykines milli Þorlákshafnar og Rotterdam sýni að tækifæri séu í þessum siglingum og með uppbyggingu í Þorlákshöfn megi auka samkeppni á flutningamarkaði, enda sé þetta stysta siglingaleiðin frá höfuðborgarsvæðinu á erlendan markað.

Þá segir hann að framlög til uppbyggingar á hafnarmannvirkjum séu af mjög skornum skammti en ríkið hefur hingað til ekki tryggt nægt fjármagn til verksins. „Það er ljóst að flest sveitarfélög á landinu eiga erfitt með að bakka upp risaframkvæmdir á hafnarmannvirkjum. Í þessu eins og öllu öðru þarf að láta reyna á hið fornkveðna um að þeir fiska sem róa. Þess vegna skoðum við þann möguleika að fá fleiri að borðinu með okkur.“