Kæru vegna seiðaeldis vísað frá

Kæru Veiðifélags Árnesinga, Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, vegna útgáfu á rekstrarleyfi seiðaeldisstöðvarinnar Laxar fiskeldi ehf. í Þorlákshöfn hefur verið vísað frá.

Félögin kærðu rekstrarleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en Laxar fiskeldi ehf. fengu leyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi á ári og er um að ræða landeldi þar sem fiskurinn verður í kerjum á landi en ekki í sjó eins og gagnrýnt hefur verið hér á landi undanfarið.

Kæra félaganna uppfyllir ekki skilyrði til kæruaðildar að málinu en í ákvörðun Skipulagsstofnunar segir að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

„Í landeldi því sem hér er til umfjöllunar er fiskurinn hins vegar í kerjum á landi og er komið í veg fyrir að hann sleppi í gegnum fráveitu með grindum á kerjum og á frárennsli, auk þess sem frárennslisvatn verður hreinsað með settjörn, tromlusíu eða öðrum sambærilegum eða betri búnaði. Er helst að seiði sleppi ef óhöpp verða við dælingu í brunnbát, en eðli máls samkvæmt fer slík dæling eingöngu fram þegar seiði hafa náð ákveðinni stærð og eru afhent til brottflutnings. Þá er því ekki saman að jafna að seiði sleppi, sem e.t.v. eru ekki lífvænleg, eða fullvaxta fiskur.“ Segir í niðurstöðu nefndarinnar.