,,Hvert ár sem maður fær að vera lifandi á þessari jörðu er einstök, dýrmæt gjöf“

Ljósmynd: Spessi

Jónas Sigurðsson heldur tónleika í Þorlákskirkju föstudagskvöldið 27. desember ásamt hljómborðsleikaranum og Þorlákshafnarbúanum Tómasi Jónssyni. Við höfðum samband við Jónas til þess að spyrja hann út í tónleikana.

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú heldur tónleikana á þessum tímapunkti? 

Þorlákskirkja

Eiginlega hefur mér alltaf þótt mikilvægt að spila tónleika í kirkjunni í Þorlákshöfn reglulega. Ég gerði þetta oft þegar ég kom fyrst til Íslands aftur. Þá var ég með tónleika í kirkjunni „heima“ í Þorlákshöfn og það var afskaplega fallegt alltaf. Ég svo margar minningar frá því þegar kirkjan var í byggingu og við krakkarnir vorum að safna pening sem við fórum með til Ingimundar sem var einn helsti prímusmótor framkvæmdarinnar. Ég man eftir tombólu í bílskúrnum heima þar sem í boði voru tugir kílóa af nammi frá Franklín sem var að flytja sjoppuna sína um svipað leyti og rann allur ágóði í byggingarsjóð kirkjunnar. Þannig að tengingin hefur alltaf verið sterk hjá mér að spila í kirkjunni.

Við vorum svo búin að vera að hugsa mikið um þetta, hvenær væri best að hafa tónleika í Kirkjunni og hvernig. Ég hugsaði að það væri tilvalið að gera eitthvað notalegt þarna milli jóla- og nýárs með Tómasi en við höfum verið að spila svolítið tveir upp á síðkastið og það hefur gengið afskaplega vel. Við ákváðum að gera þetta þarna 27. desember. Ég fór svo að segja mömmu og pabba frá þessu og fattaði þá að auðvitað kallast þetta á við tónleikana sem Jónas Ingimundarson hélt í Þorlákskirkju árum saman til minningar um pabba sinn á afmælisdegi Ingimundar þann 28. desember ár hvert. Ég held að það sé kósmísk tenging þarna og þegar ég fattaði þetta þá ákvað ég að það væri augljóslega hið ósýnilega plan að taka sögu kirkjunnar aðeins inn í þessa tónleika og ekki síður styrkinn í samfélagi sem getur ráðist í svona verkefni og hjálpast að. Svona sögur mega ekki gleymast. 

Við hverju mega áhorfendur búast við á tónleikunum í Þorlákskirkju? 

Ljósmynd: Rakel Hinriks, N4

Tónleikagestir mega búast við notalegheitum og kósý stemmningu. Við Tómas verðum tveir og með helling af græjum til að skapa góðan hljóðheim. Ég ætla að gefa hugleiðingum í tengslum við lögin og söguna í Þorlákshöfn góðan tíma og leyfa þessu síðan bara að þróast í vonandi fallega og einstaka upplifun. Í lok tónleikanna bjóðum við upp á kaffi og konfekt og hvetjum fólk til þess að gefa sér tíma til að spjalla og eiga góða stund í krikjunni.

Hvað einkenndi árið 2019 hjá þér?

Ljósmynd: Spessi

Árið einkenndist af mjög góðri vaxandi jarðtengingu hjá sjálfum mér. Eitthvað sem ég hef verið að vinna að í rólegheitunum. Síðustu ár hef ég verið mjög á útopnu, að spila út um allt og mikil keyrsla. Undanfarið hef ég unnið að því að hægja á þessu og njóta meira. Það gengur mjög vel.  Engu að síður tókst okkur að spila endalaust af skemmtilegum tónleikum á árinu. Uppákomur eins og Aldrei Fór Ég Suður, tónleikaröð í Fjarðarborg, Bræðslan á Borgarfirði Eystri, Bæjarbíó, Græni Hatturinn, Heima Hafnarfirði, Vagninn Flateyri, Hammond hátíð Djúpavogi, Humarhátíð Höfn, Kótilettan Selfossi, Hjarta Hafnarfjarðar, Heima á Skaga, Innipúkinn í Reykjavík, Ein með öllu Akureyri, Rokk í Hafnarfirði, Hamingjan við hafið í Þorlákshöfn, Klikkuð menning, Gamla Bíó á Þorláksmessu og svona mætti lengi telja. Á sama tíma styrki ég ræturnar með því að vinna að uppbyggingu hugbúnaðarfyrirtækis þar sem ég er í félagsskap við bernskuvini mína úr 815 og nýt þess afar mikið að starfa með svona gömlum vinum, vinátta sem nær aftur í leikskóla,  það er sko eitthvað annað dýrmætt.

Tónlistarmyndband við lagið Núna sem tekið var upp í Þorlákskirkju fyrr á þessu ári.

Setur þú þér áramótaheit?

Ég set mér alltaf áramótaheit. Mér finnst gott að nota þennan tíma milli jóla- og nýárs til að fara yfir árið og skoða aðeins hvernig hlutirnir standa og hvað ég vilji hreyfa áfram á nýju ári. Ég nota þá oft tækifærið og skrifa mikið í pælingabókina mína. Skrifa pælingar um fortíð og framtíð og í kjölfarið skerpist gjarnan sýnin mín á hvað ég þurfi að gera.

Á endanum er áramótaheitið orðið mjög keimlíkt á milli ára. Yfirleitt gengur það út á það að reyna að vera aðeins einlægari, sannari og samkvæmur sjálfum mér á nýju ári en ég var á því síðasta. Reyna að elska fólkið mitt aðeins dýpra, vera aðeins betur til staðar og hlusta á vini mína og fjölskyldu. Þá set ég mér alltaf markmið að dýpka trúar-tenginguna mína við almættið með því að stunda hugleiðslu og að hlusta á innsæið mitt. Hvert ár sem maður fær að vera lifandi á þessari jörðu er einstök, dýrmæt gjöf og ég vil gjarnan njóta þess eins vel og ég get.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? 

Ég hlakka til að sjá sem flesta í kirkjunni. Ég hef mikla trú á þessu. Það er alltaf eitthvað einstakt við að spila í Þorlákskirkju á myrku vetrarkvöldi. Einstök stemmning sem ég vona að sem flestir muni vilja njóta með okkur.

Eins og áður kom fram eru tónleikarnir í Þorlákskirkju föstudagskvöldið 27. desember. Þeir hefjast kl. 21 og er miðasala á tix.is og einnig við inngang frá kl. 20.