Akranes í Þorlákshöfn

Eins og við sögðum frá í byrjun desember þá hefur Smyril Line, sem á og rekur Mykines, fest kaup á nýrri vöruflutningaferju sem mun hefja áætlunarsiglingar nú um miðjan janúar milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Ferjan, sem fær nafnið Akranes, er 10.000 tonn og getur tekið 100 vöruflutningavagna í hverri ferð.

Sá stóri atburður átti sér stað í morgun að Akranes lagðist að bryggju í Þorlákshöfn í fyrsta sinn. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss sagði að því tilefni:

„Mér þótti vænt um að sjá það mæta Herjólfi. Eitthvað kitlaði inn í mér við að sjá þessi tvö skip -sem ég hef átt þátt í að undirbúa komu á til landsins- nánast kyssast í morgunsárið. Ég veit sem er að bæði eiga þau eftir að reynast vel og færa sín samfélög fram um markvisst skref.“

Þá bætir Elliði við:

„Ég vil einnig minna á að á bak við skref sem þetta er ótrúleg vinna og djarfar ákvarðanir hjá Smyril Line og þeirra öflugu starfsmönnum. Ég veit sem er að Linda, Rene, Halgir og Rúni hafa þurft að vaka nokkuð margar nætur til að koma þessu á. Hlutverk okkar hjá Sveitarfélaginu er að veita þeim stuðning í því sem að aðstöðunni hér snýr og halda áfram innviðauppbyggingu hafnarinnar. Þannig náum við í sameiningu áframhaldandi vindi í seglinn og þannig styrkist bæði fyrirtækið og samfélagið hér.“

Hér má lesa frétt okkar frá því í desember þar sem nánar er fjallað um ferjuna Akranes.