Samið við „Grænni jörð“ um rekstur tjaldsvæðisins í Þorlákshöfn

Á seinasta fundi bæjarráðs var fjallað um minnisblað vegna útboðs á rekstri tjaldsvæðis sveitarfélagsins. Í minnisblaðinu kom m.a. fram að auglýst hafi verið eftir samstarfsaðilum við rekstur tjaldsvæðis. Þrír aðilar sýndu auglýsingunni áhuga og hefur þegar verið fundað með öllum þeirra. Að teknu tilliti til þess sem fram kom á fundunum var mælt með að leitað verði eftir samningum við fyrirtækið „Grænni jörð ehf“.

Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar segir að nokkur tími sé síðan tekin var ákvörðun um að bjóða út rekstur tjaldsvæðisins.  „Íbúar í Þorlákshöfn þekkja það að framtak einstaklinga er það sem allra jafna ræður árangri. Þorlákshöfn varð fyrst og fremst til vegna þors og áræðis einstaklinga sem ákváðu að veðja á þetta gjöfula svæði og hefja hér útræði og ýmsa tengda þjónustu.  Tíminn hefur liðið og áherslur breyst.  Það er hinsvegar jafn gilt og áður að einstaklingar eru oftast betri í að veita þjónustu og byggja upp rekstur en hið opinbera.“

Gestur segir að ferðaþjónusta eigi enn mikið inni hér í nágrenni Þorlákshafnar.  „Það fer ekki fram hjá neinum að ferðaþjónusta gegnir í dag viðamiklu hlutverki í atvinnulífi landsmanna. Frumkvöðlar í atvinnulífinu hafa á seinustu árum verið að finna sér þar farveg samfélaginu öllu til heilla.  Náttúran er hér gjöful og rík, við liggjum nálægt fjölförnustu leiðum ferðamanna og sagan stórbrotin.  Hér eru í dag afar spennandi fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu sem öll eiga það sammerkt að vera í eigu frumkvöðla.  Með þetta í huga var tekin ákvörðun um að leita eftir samstarfi við einkaaðila um rekstur tjaldsvæðis sveitarfélagsins. Það er ánægjulegt að sjá að til verksins hafa valist ung hjón í Þorlákshöfn og óneitanlega er heillandi þegar ungt fólk deilir þeirri skoðun með okkur að Þorlákshöfn búi yfir fjölda sóknarfæra á sviði ferðaþjónustu og ánægjulegt að geta veitt þeim byr undir vængina með samstarfi.  Ég er hvergi í vafa um að á næstu misserum mun tjaldsvæðið okkar vaxa og dafna undir þeirra stjórn.“

Aðspurður um hvort að fleiri breytingar séu nú í farvatninu hvað þjónustu við ferðamenn varðar segir Gestur að svo sé.  „Til að auka enn þjónustu við ferðamenn hefur jafnframt verið tekin ákvörðun um að færa upplýsingaþjónustuna úr bóksafninu yfir í íþróttamiðstöðina.  Þar með færist þjónustan nær tjaldsvæðinu og þungamiðju ferðaþjónustunnar við sundlaugina.  Opnunartími eykst verulega og þar með allt aðgengi.“