Vilja rafvæða nýja dráttarbátinn

Þorlákshöfn sótti nýverið um styrk í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að breyta dísilknúnum dráttarbát í tengitvinnknúinn þ.e.a.s. með rafhlöður og dísilknúnar ljósavélar til að knýja skipið áfram. Sambærilega knúinn og nýi Herjólfur.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var fyrir skemmstu sé gert ráð fyrir 300 milljónum króna til ýmissa verkefna á sviði orkuskipta, þar með talið til haftengdrar starfsemi. „Við fórum mjög hratt af stað í undirbúning þessa verkefnis. Það liggur enda fyrir að verkefni sem styrkt verða af umræddum fjármunum þurfa að hefjast eigi síðar en 1. september 2020 og skal vera lokið fyrir 1. apríl 2021.”

Eins og kom fram fyrir fáeinum dögum átti Þorlákshöfn hæsta boð í kaup á dráttarbátnum Jötunn og er nú unnið að því að ljúka þeim kaupum. Elliði segir að sá bátur, eins og dráttarbátar almennt, sé kjörinn til þessarar breytingar. „Það hentar hafnardráttarbátum vel að vera rafknúnir að hluta þar sem aflþörf þeirra er mikil en orkuþörf lítil. Siglingahraðinn er lágur og hver sigling tiltölulega stutt um og innan við 1 klukkustund. Annað sem er mikill kostur er að hleðslutími dráttarbátsins getur verið langur eða allt 20 klukkustundir sem þýðir að spennan getur verið lág bæði í bát og upp á landi. Aflþörf tengingarinnar er því lítil. Það var því kjörið að sækja um í þetta verkefni og kanna þar með hvort hægt sé að taka enn eitt skrefið í átt að umhverfisvænni hafnarstarfsemi.“

Elliði segir að með rafvæðingu Jötuns sé hægt að stíga skref í minnkun útblásturs og rafvæðingu dráttarbáta hér á landi. Verkefnið væri mjög fordæmisgefandi og reynslan nýttist vel til að hvetja aðrar hafnir til sambærilegra verkefna. Skipið myndi að nánast öllu leyti keyra á rafmagni sem hlaðið væri á með landtenginu en væri líklegast einnig búið dísil vélum upp á áreiðanleika skipsins. „Ölfus er orkuríkt samfélag. Héðan kemur stór hluti allrar þeirrar orku og varma sem nýtist á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum verið að skoða að taka stærri skref í nýtingu orkunnar hér í sveitarfélaginu til að mynda til stóraukinnar framleiðslu á umhverfisvænum matvælum. Það er því eðlilegt metnaðarmál að við skoðum einnig hvort hægt sé að knýja dráttarbát hafnarinnar með orku úr Ölfusi“.

Kostnaður við breytingu veltur að mestu leyti á stærð rafhlöðu og tæknilegri útfærslu en gera má ráð fyrir að heildarkostnaður verkefnisins sé um 100 milljónir króna og olíusparnaður verði allt að 100 tonn á ári.