Íþróttir á tímum Covid-19

Nýlega hófust reglubundnar íþróttaæfingar hjá börnum aftur eftir nokkuð hlé vegna þeirra sóttvarnartakmarkana sem hafa verið í gildi. Skemmst er frá því að segja að mikil gleði braust út á mínu heimili enda bý ég með einkar kraftmiklum orkuboltum sem elska að stunda fimleika og körfubolta. Gleðin var einlæg og mikil og það rann upp fyrir mér hversu mikilvægt það er fyrir börnin mín að iðka íþróttir og annað tómstundastarf.

Aðstaðan til fyrirmyndar

Við sem búum hér í Ölfusi erum heppin þegar kemur að hvers kyns íþróttaiðkun. Segja að Ölfusið sé sannkölluð paradís fyrir alla þá sem stunda íþróttir. Í sveitarfélaginu er enda fyrsta flokks sundlaug, frjálsíþróttavöllur, fjöldamargir fótboltavellir, strandblakvöllur, frisbígolf, tvær motocrossbrautir 18 holu golfvöllur, reiðvöllur, Íþróttahús í fullri stærð með spánýrri viðbyggingu undir fimleika, að ógleymdum ótal kílómetra af reiðvegum sem eru þvers og kruss um sveitarfélagið. Til viðbótar við allt þetta hafa jaðaríþróttir á borð við brimbrettaiðkun og svifvængjaflug rutt sér til rúms. Nýjasta viðbótin er svo rafíþróttafélag sem bundnar eru miklar vonir við.  Óhætt er að segja að hér hefur heldur betur verið haldið vel á spöðunum hvað varðar innviðauppbyggingu á íþróttamannvirkjum í gegnum áratugina.

Mikilvægi sjálfboðastarfsins

Íþrótta og tómstundastarf er orðin risastór partur af hversdags rútínunni og við e.t.v. farin að taka því sem sjálfsögðu. Covid-19 hefur hins vegar sýnt okkur að slíkt er heldur betur ekki sjálfsagt. Þær takmarkanir sem hafa verið og eru í gildi, hafa haft skelfileg áhrif á íþróttahreyfinguna. Ekki einungis fjárhagsleg heldur hefur þetta sett allt starf úr skorðum og blessaða rútínan fokin út um gluggann. Forsvarsmenn og þjálfarar hafa hins vegar unnið þrekvirki hvað varðar að viðhalda tengslum við iðkendur og foreldra. Alls kyns heimaæfingar hafa verið sendar rafrænt sem hefur auðveldað ferlið mikið.  Undirritaður hefur því rennt sér í splitt og hent sér í handstöðu með mjög svo misjöfnun árangri, enda ekki annað hægt en að taka þátt. Það er auðvitað óhætt að segja að illmögulegt væri að halda úti svona starfi án sjálfboðaliðans. Hér er ótrúlega mikið af metnaðarfullu fólki sem vinnur mikið og óeigingjarnt starf í sjálfboðavinnu fyrir hinar ýmsu greinar svo börnin okkar geti valið á milli íþróttagreina. Fyrir það ber að þakka! Það er þó rétt að nefna að það er ótrúlega mikilvægt að við tökum öll þátt. Sama í hvaða mynd. Öðruvísi er þetta ekki hægt.

Áfram veginn

Það er ekki bara fjárhagur íþróttafélaga sem hefur oðrið fyrir blóðtöku. Við siglum nú inn í mikið óvissutímabil. Atvinnuleysi innan sveitarfélagsins hefur aukist mikið á þessu ári og stendur nú í 12%. Ég er ansi hræddur um að það ástand muni einungis versna þó bjartsýnin sé mér nú eðlislægari. Hvað svo sem verður er ljóst að fjárhagur heimilanna hefur tekið á sig högg. Því var ánægjulegt að sjá útspil stjórnvalda til að koma til móts við þau heimili sem eru tekjulág eða hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna atvinnumissis. Aðgerðin felst í sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Sveitarfélög annast afgreiðslu styrkumsókna og hægt er að sækja um styrkinn inn á íbúagátt. Rétt er að nefna að styrkurinn kemur til viðbótar frístundastyrks sveitarfélagsins sem nemur 40.000 á hvert barn.

Grétar Ingi Erlendsson
formaður bæjarráðs Ölfuss