Jólaskókassi Kiwanismanna og Þórsmerkurferð grunnskólanema

Fimmtudaginn 9. september lögðu nemendur í 8. og 9. bekk af stað í dagsferð í Þórsmörk. Ferðin er í boði Kiwanismanna en þeir greiða allan kostnað við ferðina með ágóða af jólakassaverkefni klúbbsins.

Tilgangur ferðarinnar er að styðja á jákvæðan hátt við unglinga í skólanum. Þetta er þriðja haustið sem Kiwanismenn bjóða nemendum í ævintýraferð af þessu tagi. Í fyrra var farið í Landmannalaugar. En fyrirhugað er að fara annaðhvort ár í Þórsmörk og hitt árið í Landmannalaugar. Þannig eiga allir nemendur sem útskrifast úr skólanum að hafa fengið tækifæri til að heimsækja þessar tvær náttúruperlu.

Ferðin tókst vel enda skartaði náttúran sínu fegursta í Þórsmörk og veðrið yndislegt. Dýrindis hádegismatur var framreiddur af Kiwanismönnum sem og grillveisla í lok dags. Nemendur fóru í gönguferð þar sem leiðin lá úr Básum inn í Langadal. Sumir gengu á Valahnjúk en aðrir að Snorraríki.

Óhætt er að segja að ánægðir nemendur hafi snúið heim í lok dags og sumum varð á orði að þeir hefðu aldrei séð aðra eins náttúrufegurð. Kiwanismenn eiga þakkir skyldar fyrir höfðinglegt boð og við í skólanum hvetjum alla góða jólasveina til að næla sér í kassa með skógjöfum núna fyrir jólin!