Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags, undirritaði ekki kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Ísland. Skrifað var undir samninginn þann 21. desember síðastliðinn og var Báran eitt þeirra fimm félaga sem ekki skrifaði undir.
Í viðtali í hádeigisfréttum Bylgjunnar lýsir Halldóra samningnum sem hamfarasamningi en 45% af félagsmönnum Bárunnar eru á lágmarkstöxtum og skilar samningurinn því litlu til þeirra.
Heimasíða Bárunnar greinir frá:
Báran, stéttarfélag harmar þá láglaunastefnu sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði. Félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með fyrirliggjandi samning fyrir þá sem lökust hafa kjörin. Algengustu launataxtar eru núna á bilinu 207.814 – 222.030, lágmarkstekjur fyrir fullt starf verður 214.000. Skattabreytingarnar koma þeim tekjuhærri til góða en lágtekuhóparnir bera ekkert úr býtum.
Framganga Samtaka atvinnulífsins í aðdraganda samninganna opinberaði algjört skilningsleysi og virðingarleysi gagnvart þeim sem lægstu kjörin hafa. Eftir þá miklu faglegu vinnu sem fór fram meðal félaganna innan Starfsgreinasambands Íslands hörmum við það tómlæti sem Samtök atvinnulífsins sýndu í kjarasamningsgerðinni og hörmum þá stefnubreytingu sem virðist hafa átt sér stað með nýrri forystu SA og afneitun þeirra á siðferðis- og samfélagslegri ábyrgð.
Krafan um hækkun persónuafsláttar náði ekki fram að ganga og undirstrikar það þá augljósu stefnu nýrrar ríkisstjórnar sem felur í sér aukna misskiptinu á kjörum þegna þessa lands.
Allir þurfa að axla siðferðis-og samfélagslega ábyrgð. Launafólk hefur ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Báran, stéttarfélag skorar á viðsemjendur og stjórnvöld að gera slíkt hið sama.