Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að þingið skori á innanríkisráðherra að fela Vegagerðinni að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar. Það er mbl.is sem greinir frá.
Í greinargerð með tillögunni segir að fyrirhuguð sé mikil uppbygging í Þorlákshöfn á næstu árum á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. Við uppbygginguna verði lögð áhersla á að nýta auðlindir og aðstöðu sem eru til staðar með áherslu á iðnað sem vel falli að umhverfinu.
Samhliða sé ráðgert að byggja upp hafnaraðstöðu samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru til stórskipahafnar. Auk þess að nýta hafnaraðstöðuna fyrir bæði inn- og útflutning til landsins, sé höfninni ætlað að vera inn- og útflutningshöfn fyrir iðnaðarsvæðið ásamt því að opna á þann möguleika að höfnin geti sinnt því að vera umskipunarhöfn fyrir vörur á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Þá segir að það sé þjóðhagslega mikilvægt að nýta þá sérstöðu sem Þorlákshöfn hefur til uppbyggingar enda styðji slík uppbygging við fjölbreytni í atvinnuþróun og búsetukostum á Suðurlandi. Þorlákshöfn búi yfir mikilli sérstöðu
„Til að nýta sem best þá kosti sem Suðurland býður upp á með gnægð lands og hagstætt veðurfar væri hægt að opna fyrir þá möguleika sem svæðið býður upp á. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja upp stórskipahöfn í Þorlákshöfn,“ segir í greinargerðinni.