Miðherji Þórsara í körfubolta, Ragnar Ágúst Nathanaelsson, hefur safnað í veglega mottu og tekur nú þátt í Mottumars, átaki gegn krabbameini hjá körlum. Ragnar fer frumlega leið í áheitasöfnun sinni en hann ætlar að leggja sjálfur inn pening fyrir framlag sitt á körfuboltavellinum í mars mánuði og skorar hann á Þorlákshafnarbúa til að taka þátt með sér.
„Ég ætla að leggja inn á fyrir hvert stig, frákast og blokk sem ég geri í öllum leikjum í mars og skora ég á stuðningsmenn Þórs að gera slíkt hið sama,“ segir Ragnar en Þórs liðið spilar þrjá leiki í þessum mánuði hið minnsta. Föstudaginn 7. mars mætir liðið Haukum, 14. er það lið Grindavíkur og síðan 16. mars verða ÍR-ingar sóttir heim.
Fyrir hvert skorað stig mun kappinn leggja inn 100 krónur, fyrir hvert frákast fara inn 200 krónur og fyrir hvert varið skot mun Ragnar leggja inn 300 krónur.
Fagmannlega gert hjá miðherjanum öfluga en lokaorð hans á Mottumars-síðunni eiga vel við. „Auðvitað má leggja inn hvaða upphæð sem er og hafið bara margt smátt gerir eitt stórt bakvið eyrað.“
Hér er síða Ragnars þar sem hægt er að senda honum áheit.