Hótel á Ölfusártanga – myndir

Hótel á Ölfusártanga (9)Á íbúafundi sem haldinn var í gær voru kynntar breytingar sem þarf að gera á aðalskipulagi Ölfuss svo áform um byggingu hótels á Ölfusártanga geti orðið að veruleika. Fyrirtækið sem hyggst ráðast í framkvæmdina heitir Makron og voru fulltrúar þess á svæðinu. Kristinn Ragnarsson arkitekt frá KRark,  sem hefur komið að hönnun hótelsins, gerði grein fyrir þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að hótelið sem um ræðir verði staðsett við hlið Hafsins Bláa við Óseyrarbrú. Hótelið verður með 64 herbergi og veitingaaðstöðu. Fram kom á fundinum að aðgengi almennings að fjörunni á þessu svæði muni ekki skerðast og að byggingin sjálf verði lágreist, í dökkum lit og muni því falla vel að landinu.

Fulltrúar fyrirtækisins sögðu frá því að búið væri að tryggja fjármagn í verkefnið og munu framkvæmdir hefjast um leið og tilskilin leyfi fást frá yfirvöldum. Á meðfylgjandi myndum má sjá að hótelið verður hið glæsilegasta og mun það án efa auka ferðamennsku á svæðinu.