Þessar áskoranir eru algjörlega að taka yfir fésbókina þessi misseri. Ég hef ekki verið spenntur fyrir þessu og ekki verið nálagt því ennþá að taka þátt í neinni þeirra. Núna langar mig að prófa svolítið. Mig langar að skora á íbúa Þorlákshafnar. Ég talaði um helgina að hér er margt frábært í gangi og margt sem Þorlákshöfn hefur fram yfir aðra, en það er farið voðalega hljótt með það.
Það bar aðeins á góma í umræðunni fyrir kostningar að hérna eru tækifæri til að fá fleiri ferðamenn og fá fólk til að flytja hingað. Fólk á ekki alltaf að bíða og ætlast til að sveitarstjórnir hverju sinni eigi að gera allt og sjá um allt. Það gerist allt of oft að fólk bíði eftir því að einhver annar geri hlutina. Það er margt sem við almennir íbúar getum gert. Nútímatækni bíður upp á allskyns möguleika. Ég er eins og flestir með facebooksíðu (augljóslega :))og er þar með 1339 vini sem mögulega sjá hvað ég skrifa. 90% af þeim búa annars staðar en í Þorlákshöfn.
Þá kem ég loksins að áskorunni. Ég ætla næstu 10 daga að koma með status hérna á fésinu um hvers vegna mér finnst gott að búa í Þorlákshöfn. Tíu hlutir sem gera Þorlákshöfn góðan samastað. Með þessu vil ég láta sem flesta vita af þeim góðu hlutum sem hér eru í gangi. Sérstaklega þá sem búa allt annars staðar. Einnig líka til að benda þeim sem hafa búið hérna lengi á einhverja hluti sem þeir eru búnir að gleyma hversu góðir þeir eru og eru farnir að taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Síðast en ekki síst að setja þessa hluti á blað fyrir mig til að minna sjálfan mig á kostina við að búa hérna. Því þegar maður fer að skrifa niður kosti og galla þá kemst maður að því að kostirnir eru töluvert fleiri.
Ég skora því á ykkur flest að koma með status um jákvæðan hlut í plássinu. Öll erum við með fullt af fólki sem sér vegginn okkar og vonandi lesa um það jákvæða sem hér er í gangi. Ég skora því ekki á einhverja 5 heldur alla sem þykir vænt um þetta bæjarfélag. Kannski er ég algjörlega búinn að tapa glórunni en engu að síður langar mér að prófa þetta og mun alla vega sjálfur koma með minn fyrsta status á morgun og síðan einn á dag næstu 10 daga.
Kveðja, Benedikt Guðmundsson
íbúi í Þorlákshöfn