Hafgríma heiðruð listaverðlaunum Ölfuss

Hafnardagar_2014_4Á setningu Hafnardaga í síðustu viku, voru Listaverðlaun Ölfuss afhent í fyrsta skipti. Menningarnefnd sveitarfélagsins óskaði eftir tilnefningum til verðlauna og valdi úr innsendum tilnefningum. Fjölmargir tilnefndu Hafdísi Hallgrímsdóttur, myndlistarkonu og var ákveðið að heiðra hana með verðlaunum. Hafdís notar listamannsheitið „Hafgríma“ og hefur alla tíð haft mjög gaman af að teikna.

Hún er fædd í Reykjavík árið 1953 og ólst upp á Seltjarnarnesinu. Hún byrjaði ekki að mála myndir fyrr en í kringum árið 2006 og ekki af neinni alvöru fyrr en árið 2010. Hafdís hefur haldið tvær myndlistasýningar, fyrst árið 2012 í Gallerí undir stiganum, Bæjarbókasafni Ölfuss og svo var hún með sýningu um nýafstaðna Hafnardagahelgi í Þorlákshöfn.

Hafdís eða Hafgríma hefur sótt myndefni sitt í náttúruna, þjóðsögur og umhverfið. Hún málar mikið með akryl litum á striga en einnig málar hún á glös, flöskur og nánast hvað sem er. Fyrir jólin síðustu var hægt að kaupa póstkort með jólasveinamyndum Hafgrímu og málaðri mynd af gamla Þorlákshafnarbænum.

Gaman verður að fylgjast áfram með því sem Hafgríma tekur sér fyrir hendur, en verðlaunin eru hugsuð sem hvatning til áframhaldandi listsköpunar.