Fram og til baka

Það eru átta á síðan við félagarnir ákváðum að gefa kost á okkur í framboði til sveitarstjórnar án þess að vita endilega hvað við vorum að fara út í enda eru verkefni sveitarstjórna afar fjölbreytt. Þessi ár hafa verið lærdómsrík, skemmtileg og að okkar mati árangursrík. Við fengum góða kosningu 2010 og hreinan meirihluta á núverandi kjörtímabili og fyrir það erum við afar þakklátir. En nú er sem sagt að koma að kosningum og við félagarnir ætlum að skipta um hlutverk, Jón Páll tekur að sér að leiða listann en   Sveinn tekur neðsta sætið. Eins og kynnt hefur verið þá bjóða Framfarasinnar og félagshyggjufólk í Ölfusi fram saman og hafa á að skipa fjórum núverandi bæjarfulltrúum í efstu fimm sætunum og finnst okkur það vera mikill styrkur enda hópurinn samstíga, komin með allgóða reynslu af sveitarstjórnarstörfum og mikinn metnað fyrir sitt sveitarfélag.

Þau eru fjölmörg verkefnin sem við höfum unnið að í bæjarstjórn sveitarfélagsins á síðustu árum og langar okkur að nefna nokkur af þeim.

Uppbygging leikskóla í þéttbýli og dreifbýli

Það verður að segjast að við erum ákaflega stoltir af starfi beggja skólastiganna í sveitarfélaginu en eins og við vitum byggir það ekki síst á góðu starfs- og forstöðufólki og samstarfi við bæjaryfirvöld.

Að skapa skólastarfi umgjörð er viðvarandi verkefni og er þessa daganna verið að leggja lokahönd á uppbyggingu leikskólamannvirkja í Þorlákshöfn.  Átján mánaða inntökumarkmið er þá endanlega innleitt og von okkar sú að bið eftir inngöngu komist í gott jafnvægi. Næsta stig þjónustunnar er að færa aldursinntökuviðmið leikskólanna enn neðar og er það verkefni næsta kjörtímabils að útfæra.

Stór  áfangi  í  leikskólamálum  í  dreifbýli  sveitarfélagsins  náðist  á  líðandi  kjörtímabili  þegar  við fjárfestum í leikskólunum í Hveragerði. Eftir þá breytingu eiga börn í dreifbýli Ölfuss jafn greiðan aðgang  að  leikskólunum  í  Hveragerði  og  börn  í  Hveragerði  en  fram  að  því  gat  verið  mjög ófyrirsjáanlegt hvenær börn sem komin voru á leikskólaaldur fengu inngöngu.  Þessi aðgerð hefur sannarlega bætt búsetuskilyrði í dreifbýlinu.

Það tengist líka börnum og æskulýðsstarfi að viðbygging við íþróttahúsið í Þorlákshöfn er farin í gang en búið er að semja við verktaka um fyrsta áfangann sem er jarðvinna og undirstöður undir húsið en skóflustunga að framkvæmdinni var tekin 13. apríl. Samhliða viðbyggingunni verður farið í mikilvæga viðhaldsaðgerð á íþróttahúsinu en skipt verður um klæðningu á húsinu, vesturgafl hússins verður endurnýjaður og loftræstikerfi verður sett í allt húsið. Það eru líka framkvæmdir í gangi í sundlauginni en bygging nýrra glæsilegra heitra potta stendur yfir og eiga þeir að komast í gagnið í upphafi sumarsins.

Íbúðir fyrir eldri borgara

Bæjarstjórn setti á laggirnar vinnuhóp sl. haust sem falið var að greina þörf fyrir frekari uppbyggingu í þágu eldri borgara sveitarfélagsins. Niðurstaða þeirrar vinnu lá fyrir í upphafi ársins en hópurinn lagði til að byggðar yrðu hið minnsta 10 íbúðir sem staðsettar yrðu við Níuna (þjónustumiðstöð aldraðra) í Þorlákshöfn og tengdust henni með tengibyggingu. Auk íbúðanna er gert ráð fyrir að byggt verði yfir starfsemi dagvistar sem nú er rekin í einni af íbúðum Níunnar. Bæjarstjórn fól vinnuhópnum nýtt hlutverk í febrúar, sem var að vinna með arkitekt að hugmyndum um fyrirkomulag og útlit og er stefnt að því að kynna þær hugmyndir fyrir bæjarstjórn og á íbúafundi í maí.

Þegar hefur verið gert ráð fyrir fjármagni hjá sveitarfélaginu til þessarar framkvæmdar á næsta og þarnæsta ári en samkvæmt áformun bæjarstjórnar er stefnt að því að öll gögn til útboðs verði tilbúin á haustdögum, framkvæmdir hefjist 2019 og íbúðirnar tilbúnar til notkunar 2020.

Leiguíbúðaframboð í samstarfi við Bjarg

Í samstarfi við Bjarg íbúðafélag verður á þessu ári hafist handa við byggingu 11 íbúða fjölbýlishúss í Þorlákshöfn. Áformað er að íbúðirnar verði tilbúnar til útleigu vorið 2019.  Útleiguformið verður á grundvelli laga um almennar íbúðir þar sem markmiðið er að efnaminni fjölskyldur og einstaklingar fái aðgang að leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.

Ógnun breytist í tækifæri

Eins og flestir íbúar Þorlákshafnar hafa tekið eftir þá mun Lýsi flytja þurrkstarfsemi sína í stórt og glæsilegt hús vestan Þorlákshafnar. Þessi breyting er kærkomin en áhrif af þurrkstarfseminni á íbúa og nærliggjandi fyrirtæki hefur reynst mörgum erfið og umræða um lyktaráhrifin í Þorlákshöfn bæjarfélaginu á tíðum verið mjög skaðleg. Því má segja að þetta sé löngu tímabært en gott samstarf tókst með bæjaryfirvöldum og eigendum Lýsis um þennan flutning og mun sá flutningur eiga sér stað í sumar.

Við erum fullvissir um að starfsemi Lýsis á eftir að stóreflast á nýjum stað, starfsfólki, eigendum og sveitarfélaginu til heilla. Það hlýtur að vera þannig að starfsemi eins og hausaþurrkun sé víkjandi þar sem hún er í miklu návígi við byggð og hefur truflandi áhrif enda var markmið okkar þegar við skipulögðum  stórt  atvinnusvæði  fyrir  vestan  Þorlákshöfn  að  þar  byggðist  upp  starfsemi með áhrifasvæði, t.d. vegna lyktaráhrifa. Þessa dagana er unnið að því að leggja veitulagnir inná  svæðið og mun reiðhjóla- og göngustígur með slitlagi vera ofan á lögnunum frá Óseyrarbraut að skipulögðu iðnaðarhverfi. Sveitarfélagið sótti um styrk til Vegagerðarinnar vegna stígsins og höfum við fengið vilyrði um dágóðan styrk.

Það var annað hvort að duga eða drepast hvað framtíð hafnarinnar varðaði!

Það þurfti áræði til að fara í stórframkvæmdir við höfnina, heildardýpkun ásamt ýmsum breytingum innan hafnar án þess að tiltekin aukin verkefni væru fyrirliggjandi enda um mjög kostnaðarsama framkvæmd að ræða. En það var bjargföst trú okkar að við yrðum að hefja framkvæmdir og þá myndu verkefnin koma. Við þurftum ekki að bíða lengi en eins og kunnugt er hófust fyrir ári síðan vikulegar siglingar milli Þorlákshafnar, Rotterdam og Færeyja.   Verkefnið, sem Smyril Line stendur fyrir, hefur gengið ákaflega vel og áfallalaust og flutningar verið umfram allar væntingar. Kröfur um aukin svæði á landi hafa að sjálfsögðu fylgt í kjölfar innflutningsins og er verið að bregðast við þessa daganna t.a.m með gerð fjögurra hektara tollvörusvæðis.

Breytingarnar á höfninni hafa líka skilað auknum flutningum af annarra hálfu og okkar mat er að höfnin í Þorlákshöfn muni jafnt og þétt vinna á sem vöruhöfn og verða ein af mikilvægustu inn- og útflutningshöfnum landsins. Áhrifin af þessum breytingum eru mikil og ekki bara við höfnina og þjónustu kringum hana. Við sem leitt höfum þessar breytingar og líklega flestir finna það að samfélagið fær mikla athygli og líkur á að ýmiss konar starfsemi staðsetji sig við ferjuleiðina. Það veltur mikið á bæjar- og hafnaryfirvöldum   hvernig umfang hafnarinnar vex og dafnar en höfnin er samfélaginu gríðarlega mikilvæg. Næstu verkefni við höfnina eru að klára viðhald á helstu viðleguköntum hennar og klára að móta frábæra hugmynd um framtíðarhöfn Þorlákshafnar sem snýst um að stækka höfnina til austurs.

Eitt af okkar stærstu tækifærum er fiskeldi

Það  er  almennt  viðurkennt  að  strandlengjan  sunnan  og  vestan  Þorlákshafnar  er  ákjósanleg  til fiskeldis, bæði til seiðaframleiðslu og landeldis. Mikill áhugi er hjá þeim aðilum, sem starfað hafa mörg undanfarin ár í Þorlákshöfn, að stækka sína starfsemi og nýir aðilar hafa fengið úthlutað lóðum. Við fögnum þessu og hefur öllum hugmyndum um uppbyggingu í þessum iðnaði verið tekið af áhuga af hálfu bæjarfélagins. Bæjarfélagið hefur þegar í sínu skipulagi skilgreint stórt svæði undir fiskeldisstöðvar, unnið með hugmyndir að því hvernig svæðið muni tengjast helstu veitum og vegtengingum. Við höfum einnig sett af stað vinnu með sérfræðingum til að rannsaka vatnsmagn á svæðinu og mögulega upptöku og munu þær upplýsingar verða hluti af skipulagsupplýsingum sveitarfélagsins. Þannig höfum við og erum að undirbúa okkur gagnvart auknum áhuga á svæðinu en uppbygging vega og annarra innviða mun haldast í hendur við vaxandi umfang fiskeldisins.

Fjárfesting í atvinnuhúsnæði

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á kjörtímabilinu að kaupa Selvogsbraut 4 í þeim tilgangi að styðja við atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og þá sér í lagi á sviði ferðaþjónustu. Áður en sveitarfélagið festi kaup á húsinu hafði eignin verið í formlegu söluferli til margra ára, án árangurs, og var húsið farið að  láta  verulega  á  sjá  og  ásýnd  bæjarins  til  vansa. Þessi tilraun  bæjarstjórnar  til  styðja við þjónustutengda starfsemi var ekki óumdeild en mikilvægt skref til þess að koma hreyfingu á hluti og eignir sem höfðu verið illa nýttar og í niðurníðslu. Húsnæðið var selt aftur og greitt fyrir það með vaxtaberandi skuldabréfi líkt og fordæmi eru fyrir bæði í sölu eigna og lóðaréttinda. Húsið hefur nú aftur fengið nýtt hlutverk sem er í takt við upphafleg áform bæjarstjórnar.

Samstarfsverkefnið Þorláksskógar

Við höfum horft til margra þátta á kjörtímabilinu og einn þeirra er gríðarlega mikilvægt samstarfsverkefni um skógrækt og uppgræðslu. Verkefnið hefur verið kynnt á íbúafundi og mun skógurinn bera nafnið Þorláksskógar. Verkefnið er mjög metnaðarfullt og munu sveitarfélagið, Landgræðslan og Skógræktin með þessu framtaki auka lífsgæði íbúa mikið. Forstöðumaður Landgræðslunnar  tók  þannig  til  orða á kynningarfundi að Þorláksskógar ætti ekki að verða síðri útivistarparadís fyrir Ölfusinga en Heiðmörk fyrir höfuðborgarbúa. Við teljum að í framtíðinni verði Þorláksskógar stolt okkar Ölfusinga en við þurfum að standa okkur gagnvart svona verkefni, það tekur langan tíma og kostar heilmikla fjármuni og reynir á eftirfylgni bæjaryfirvalda.

Ljósleiðari til 95 % heimila í sveitarfélaginu

Það er afar ánægjulegt að ljósleiðaravæðing sé orðin að veruleika í Sveitarfélaginu Ölfusi en vorið 2015 var lagningu um sveitarfélagið því sem næst lokið. Enn er eftir að leggja í Selvoginn og horfum við  nú til mjög raunhæfra  lausna í þeim efnum en ljósleiðari verður  lagður  vestur  á  nýja iðnaðarsvæðið (þar sem Lýsi er að byggja) og verður því mun einfaldara en áður að búa til lausn gagnvart Selvogi. Það eru mörg sveitarfélög sem eru að ljósleiðaravæða hjá sér þessa dagana en við í Ölfusi vorum með þeim fyrstu á landinu sem lögðum í ljósleiðara um okkar dreifbýli.

Styrking Vatnsveitu Berglindar

Framundan á þessu ári er að virkja kaldavatnsholu sem boruð var í landi Ölfusborga á síðast ári og með þeirri tengingu mun afhending kaldavatns batna til muna á vestursvæði Vatnsveitu Berglindar. Má segja að þetta sé fyrsta stóra skrefið í  að bæta stöðu vatnsveitunnar en talsverð þörf er komin á endurbætur og auka afhendingargetu veitunar.

Þjónustan í sífelldri þróun til hagsbóta fyrir okkur öll í Ölfusi

Að mörgu er að taka í þessum efnum en m.a. voru styrkir til foreldra vegna íþrótta- og æskulýðsstarfs innleiddir á kjörtímabilinu auk þess sem fjármagn til styrktar öflugu íþróttastarfi félaganna hér aukið umtalsvert.  Þjónusta við nemendur í skólum sveitarfélagsins var einnig bætt með auknu fjármagni til faglegs starfs, sumarfrístund sett á laggirnar og nemendum úthlutað öllum námsgögnum án endurgjalds.

Fjárhagsstaða sterk og rekstur gengur vel

Öll þau ár sem við Framfarasinnar höfum verið í bæjarstjórn hefur rekstrarniðurstaðan verið jákvæð og á þessum átta árum hefur skuldaviðmið sveitarfélagsins (hlutfall skulda af tekjum) farið frá því að vera 198% niður undir 80%   á síðasta ári og var rekstrarafgangur síðasta árs rúmar 150 milljónir. Miklar framkvæmdir hafa verið í sveitarfélaginu á undanförnum árum sem tekist hefur að fjármagna án lántöku ef frá eru talin lán sem voru tekin vegna tveggja íbúðarhúsa sem keypt voru í félagslegum tilgangi.

Það skiptir máli hverjir stjórna og hvernig stjórnað er

Það á ekki að dyljast neinum að miklar framfarir hafa átt sér stað í sveitarfélaginu á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok. Sveitarfélagið er eftirsótt til búsetu, íbúar hafa aldrei verið fleiri og fer fjölgandi, ný fyrirtæki eru að festa hjá okkur rætur og jarðvegur til að fleiri skjóti rótum. Framfarasinnar og félagshyggjufólk sjá mjög mörg spennandi tækifæri á komandi kjörtímabili og ætla að vinna saman að því að fanga þau sem flest, í samstarfi og samráði við öflugt starfsfólk sveitarfélagsins sem og íbúa þess.  Ráðinn bæjarstjóri Gunnsteinn R. Ómarson hefur öðlast dýrmæta reynslu í sínu starfi á líðandi kjörtímabili og hefur mikinn metnað fyrir velgengni sveitarfélagsins og er vilji okkar að til hans verði leitað um áframhaldandi starf í þágu sveitarfélagsins að kosningum loknum.

Sveinn Steinarsson forseti bæjarstjórnar, skipar 14. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks og Jón Páll Kristófersson formaður bæjarráðs, skipar 1. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks