Frá því í maí hafa staðið yfir prufur í aðalhlutverk söngleiksins Billy Elliot sem Borgarleikhúsið setur á svið í mars. Níuhundruð drengir mættu í fyrstu prufur og sex þeirra var boðið að taka þátt í Billy skóla sem stóð yfir í allt sumar eða í tíu vikur. Í skólanum lærðu drengirnir ballett, jassdans, stepp, nútímadans, leiklist, söng og fimleika.
Síðastliðinn sunnudag voru síðan þrír drengir valdir til að skipta með sér hlutverki Billys. Einn þeirra er úr Þorlákshöfn, það er hann Sölvi Viggósson Dýrfjörð, en hann byrjaði að læra dans hjá Önnu Berglindi Júlísdóttur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Anna Berglind hvatti hann til að æfa samkvæmisdans og hefur hann síðastliðin fjögur ár æft dans, fyrst í Reykjavík í Dansskóla Jóns Péturs og Köru og síðan hjá Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Annar drengur af Suðurlandi hreppti hlutverkið, en það er Baldvin Alan Thorarensen úr Hveragerði, en þeir Sölvi hittust fyrst á Svæðiskeppni Stóru upplestrarkeppninnar þar sem Baldvin vann keppnina með eftirminnilegum hætti. Þriðji drengurinn sem fer með hlutverk Billys er úr Kópavogi og heitir Hjörtur Viðar Sigurðarson.
Það verður spennandi að sjá drengina á stóra sviði Borgarleikhússins í vor, en fram að þeim tíma verða stífar æfingar í dansi og fimleikum þar sem hlutverkið krefst yfirburða dans- og fimleikahæfileika. Í leikskrá segir um leikverkið: „Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu – mögnuð og falleg saga um baráttu drengs við fordóma samfélagsins og fjölskyldunnar um að fá að vera sá sem hann er. Þetta er kraftmikið verk um alvöru fólk með skotheldri og grípandi tónlist eftir Elton John, stórfenglegum hópdansatriðum og ótrúlega hæfileikaríkum dreng í aðalhlutverki sem á eftir að fá áhorfendur til að gapa af undrun“.