Stór hluti íbúðarhúsnæða í Þorlákshöfn eru nú til sölu og virðist ekki mikil hreyfing vera á markaðnum þar sem margar þeirra hafa verið á sölu í þó nokkurn tíma.
Samkvæmt lauslegri athugun Hafnarfrétta á vefsíðunni Fasteignir.is, sem hefur yfirlit yfir flestar fasteignasölur landsins, má sjá að yfir 100 íbúðir eru til sölu í Þorlákshöfn. Heildarfjöldi íbúða í Þorlákshöfn er 515 sem gefur okkur að um fimmta hver er til sölu eða 20 prósent allra íbúða í bænum.
Þegar litið er til nágranna okkar í Hveragerði eru aðeins færri íbúðir til sölu en þó í kringum 100. Heildarfjöldi íbúða í Hveragerði er 820 sem gerir að sirka 12 prósent íbúða eru þar til sölu. Á Selfossi eru rúmlega 200 íbúðir til sölu en þar er heildarfjöldi íbúða 2.375 og eru þá tæplega 9 prósent íbúða til sölu.