Um helgina fór fram kraftlyftingarmót í íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn en þetta er annað árið í röð sem mótið er haldið í höfninni
Þrettán keppendur tóku þátt að þessu sinni, þar af fjórar konur og níu karlar.
„Við fórum af stað með mótið í fyrra til að byggja enn frekar undir vaxandi áhuga á kraflyftingum i Þorlákshöfn,“ segir Rúnar Gunnarsson einn skipuleggjanda mótsins en ásamt honum voru Brynjólfur Hjörleifsson og Ríkarð Bjarni Snorrason sem sáu um skipulagninguna.
Mótið tókst mjög vel að sögn Rúnars en þeir félagar eru með meira í pípunum. „Við erum jafnvel að hugsa um að halda aflraunamót í Þorlákshöfn næsta sumar,“ segir Rúnar að lokum en hann vill koma fram kærum þökkum til Fitnessports og Meitilsins, styrktaraðilum mótsins.