Fimmtudaginn 29. janúar síðastliðinn sat ungmennaráð Ölfuss fund bæjarstjórnar og flutti nokkur mál sem snerta ungmenni og aðra íbúa sveitarfélagsins.
Málefnin sem ungmennaráð fjallaði um voru ekki valin af handahófi heldur voru þetta málefni sem voru nefnd á ungmennaþingi ráðsins sem haldið var í nóvember síðastliðnum í samvinnu við Æskulýðsvettvanginn. Málefnin sem ungmennaráð fjallaði um voru eftirfarandi:
- Samgöngumál: Ungmennaráð telur mikilvægt að ferðum verði fjölgað í nálæga byggðakjarna. Lögðu þau sérstaka áherslu á að bæta við einni ferð á Selfoss upp úr hádegi. Einnig var nefnt að lækka þurfi fargjaldið í strætó.
- Frítt í sund til 18 ára en í dag er einungis frítt fyrir börn upp að 16 ára aldri.
- Frístundastyrkir: lagði ungmennaráð áherslu á að farið verði í vinnu við að greina hvaða möguleikar séu í boði svo hægt verði að taka upp frístundastyrki sem fyrst.
- Leiguhúsnæði: Ungmennaráð telur mikilvægt að sveitarfélagið reyni að stuðla að fjölgun leiguhúsnæðis í sveitarfélaginu svo ungt fólk sjái sér fært að búa áfram í sinni heimabyggð.
- Náms- og starfsráði: ungmennaráð telur mikilvægt að ráðin verði náms- og starfsráðgjafi í grunnskólann.
Einnig afhenti Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, formaður ungmennaráðs, bæjarstjórn skýrslu með niðurstöðum ungmennaþingsins.