Héraðsdómur Suðurlands hafnaði fyrir helgi kröfu Íslenska gámafélagsins um að fá tilboðsgögn afhent vegna útboðs um sorphirðu í Ölfusi. Vísir.is greinir frá málinu.
Taldi dómurinn ekki geta tekið afstöðu þar sem einkamál hefði verið höfðað í Héraðsdómi Reykjavíkur milli beggja aðila og Gámaþjónustunnar. Bendir dómurinn á að þegar mál hafi verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem eru gerðar í því í öðru máli. Það er álit dómsins að raunverulega sé um að tefla sama sakarefni í báðum málum og því ekki hægt að taka efnislega afstöðu í málinu að þessu sinni.
Upphafið má rekja til útboðs sem fór fram árið 2013 á sorphirðu í sveitarfélaginu. Gámaþjónustan átti lægsta tilboðið en þrjú fyrirtæki skiluðu inn tilboðum í verkið. Íslenska gámafélagið vildi fá afhent gögn til að geta glöggvað sig á tilboðinu en sveitarfélagið Ölfuss neitaði að afhenda gögnin.
Íslenska gámafélagið fór með málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og vildi fá umrædd gögn afhent. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ölfus ætti að afhenda gögnin en sveitarfélagið neitaði enn að afhenda tilboðsgögn til samkeppnisaðila Gámaþjónustunnar.
Í kjölfarið höfðaði Íslenska gámafélagið mál á hendur sveitarfélaginu. Lögfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtaka iðnaðarins segja aftur á móti mikilvægt að upplýsingar sem þessar séu ekki afhentar samkeppnisaðila því það myndi grafa undan fyrirkomulagi útboða hins opinbera.