Skuldir lækka og fjárhagur styrkist

ráðhúsið2Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss, 30. apríl sl., var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2014 tekinn til síðari umræðu og staðfestingar.

Helstu niðurstöðutölur ársreiknings 2014
Rekstrartekjur A-hluta voru alls 1.555 m.kr. en rekstrarútgjöld 1.431 m.kr. og varð því rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði jákvæð um 124 m.kr. Fjármagnskostnaður nettó varð 42 m.kr og lækkaði um 57 m.kr. milli áranna 2013 og 2014 og rekstrarniðurstaða A-hluta því jákvæð um 82 m.kr.

Rekstrartekjur samstæðu, þ.e. A- og B hluta, voru alls 1.751 m.kr. en rekstrarútgjöld 1.560 m.kr. og rekstarniðurstaða fyrir fjármangsliði því jákvæð um rúmar 190 m.kr. Fjármagnskostnaður samstæðunnar nettó var 53 m.kr og hagnaður samstæðunnar því 138 m.kr.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 317 m.kr. og fjármögnunarhreyfingar og afborganir skuldbindinga voru samtals um 136 m.kr.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 194 m.kr. og handbært fé í árslok var 256 m.kr.

Eignir samstæðunnar í árslok voru bókfærðar að fjárhæð 4.146 m.kr. en skuldir samtals voru færðar að fjárhæð 2.028 m.kr. og eigið fé því bókfært 2.118 m.kr. Langtímaskuldir í árslok voru 1.807 m.kr. og lækkuðu á árinu um 77 m.kr. Lífeyrisskuldbinding hækkar um 22 m.kr. milli ára og er um 354 m.kr.

Veltufjárhlutfall var 1,31 og hækkar frá árinu 2013 en þá var það 1,22.

Eiginfjárhlutfall heldur áfram að styrkjast og var í lok árs rúm 51% og hækkar á milli ára.

Heilt yfir gekk rekstur sveitarfélagsins mjög vel á síðasta ári og munar þar mikið um lækkuð fjármagnsgjöld en verðbætur voru ísamanburði við síðasta ár, mjög lágar á árinu og áhrifa endurfjármögnunar fyrra árs er strax farið að gæta.  Almennt hefur fjárhagur og rekstrarumhverfi sveitarfélagsins batnað mikið á síðustu árum þrátt fyrir töluverða aukningu í þjónustu við íbúa sem kallað hefur á aukin útgjöld á ýmsum sviðum.

Lækkað skuldahlutfall, góð fjárhagsstaða og mjög góð búsetuskilyrði

Engin ný lán voru tekin á árinu þrátt fyrir að fjárfest hafi verið fyrir 194 m.kr.  Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum.  Skuldahlutfall sveitarfélagsins varð hæst 198% eftir hrun en hefur farið stöðugt lækkandi á síðustu árum og var í árslok 2014 komið niður í 97,5%.

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er mjög góð og fjárhagsáætlun ársins, rétt eins og fyrra árs gerir ráð fyrir áframhaldandi eflingu grunnþjónustu og lækkun skuldbindinga.  Sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við þau stóru framfararverkefni sem áformuð eru eins og endurbætur hafnarinnar, uppbyggingu íþróttaaðstöðu og endurbætur á elsta hluta leikskólans Bergheima svo eitthvað sé nefnt.

Innviðir sveitarfélagsins eru til fyrirmyndar.  Grunn- og leikskólar eru verðlaunaðir fyrir starf sitt en skemmst er að minnast afhendingar Orðsporsins fyrr á þessu ári.  Íþróttaaðstaðan er glæsileg og ungmenna- og íþróttastarf er í miklum blóma.  Það sama má segja um menningarlífið en í því sambandi má nefna Lúðrasveit Þorlákshafnar sem er landsþekkt og Tóna og Trix sem eru að gera garðinn frægan.  Góðar hafnaraðstæður eru í Þorlákshöfn og verða þær efldar enn frekar á næstu árum.  Segja má að stutt sé í allar áttir og allar aðstæður hér kjörnar til öflugrar atvinnuuppbyggingar auk þess sem búsetuskilyrði eru mjög góð.

 

Tekið af vef sveitarfélagsins: www.olfus.is