Axel Örn Sæmundsson heiti ég og er mörgum fótboltaáhugamönnum í Þorlákshöfn kunnugur. Ég æfi og hef alltaf æft fótbolta með Ægi og hefur mér alla tíð líkað vel við. Ég byrjaði mjög ungur að æfa með meistaraflokk Ægis og sat minn fyrsta leik á bekk Ægis aðeins 13 ára gamall. Frá þeim tíma hef ég verið í keppnishóp Ægis og spilað nokkra leiki. Ég hef á þessum fjórum árum tekið eftir hræðilegri þróun á mætingu fólks á leiki hjá okkur.
Árið þegar Ægir fór upp úr 3. deildinni var mikið af fólki á vellinum og höfðum við alls ekki efni á að kvarta yfir stuðning frá stúkunni og fólki í þorpinu en eftir að við fórum upp í 2. deild hef ég horft upp á dvínandi mætingu ár eftir ár, leik eftir leik. Það er alltaf kjarni af fólki sem mætir á leiki og veitir okkur stuðning og fá þessir einstaklingar mikið lof fyrir frá okkur í liðinu og fólkinu í kringum Knattspyrnufélagið Ægi en því miður eru þetta of fáir einstaklingar.
Nú eru liðnar 5 umferðir í 2. deildinni og sitja Ægismenn í 9. sæti með 4 stig en við ætlum okkur að snúa þessu gengi við og reyna að koma okkur í efri hluta deildarinnar. Stuðningur úr þorpinu gæti hjálpað okkur svakalega að nálgast markmið okkar og vil ég hvetja fólk til að mæta á Þorlákshafnarvöll í sumar. Ég veit hvað býr í þessum hóp og er þetta gengi okkar í fyrstu umferðunum ekki nógu ásættanlegt en með betri stuðningi á heimaleikjum frá Þorlákshafnarbúum gæti liðið náð að sýna sinn rétta lit og þar með náð mun betri árangri.
Næsti leikur er laugardaginn 13. júní á Þorlákshafnarvelli klukkan 14:00 á móti Hetti frá Egilsstöðum en þeir eru búnir að vera í basli eins og við í byrjun tímabils og er þetta því mikilvægur leikur. Vil ég hér með hvetja fólk til að mæta á þann leik og sjá hvað raunverulega býr í okkur Ægismönnum og hvetja okkur áfram til sigurs!
Með von um að sjá sem flesta á Þorlákshafnarvelli í sumar
Axel Örn Sæmundsson