Á seinasta fundi ungmennaráðs sem haldinn var föstudaginn 12. júní sl. var ákveðið að halda síðsumarshátíð líkt og ungmennaráð gerði í fyrra. Ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvaða viðburðir verða í boði en í fyrra var t.d. kubbmót, streetball, sápubolti, risabox og fleira.
Axel Örn Sæmundsson mun halda utan um skipulag hátíðarinnar en honum til halds og trausts verða fulltrúar í ungmennaráði og annað ungt fólk sem hefur áhuga á að koma að skipulagningu hátíðarinnar. Þó svo að ekki sé komið á hreint hvað viðburðir verða í boði þá gátu fulltrúar í ungmennaráði upplýst blaðamann Hafnarfrétta um að hátíðin í ár verði mun veglegri en í fyrra og að stefnt sé að því að halda hana í vikunni eftir verslunarmannahelgina.