Knattspyrnulið Ægis hefur samið við tvo leikmenn til að leika með liðinu seinni hluta tímabilsins í 2. deildinni.
Skúli Bragason, vinstra megin á myndinni, er 21 árs varnarmaður sem kemur á láni frá Leikni. Hinn leikmaðurinn er Spánverji að nafni Ramón Torrijos Ánton en hann er 29 ára sóknar þenkjandi miðjumaður. Hann hefur spilað í 3. og 4. efstu deild á Spáni.
Þessir leikmenn koma að öllum líkindum til með að styrkja hóp Ægis fyrir seinni helming mótsins. Liðið er sem stendur í 10. sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Njarðvík sem er í því næstsíðasta og þar með fallsæti.
Ægismenn eiga mjög mikilvægan leik í Þorlákshöfn annað kvöld þegar KV kemur í heimsókn. Ægir hefur enn ekki sigrað á heimavelli í sumar og ætla sér án efa að bæta úr því með sigri á Vesturbæingum. Leikurinn hefst klukkan 20:00.