Nú stendur yfir tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju þar sem efnt er til tónleika á sunnudögum í júlí og ágúst.
Næstu tónleikar eru sunnudaginn 2. ágúst en þá munu þrjár söngkonur flytja fjölbreytta dagskrá, þær Ísabella Leifsdóttir sópran, Margrét Einarsdóttir sópran og Þóra Passauer kontra-alt, ásamt Magnúsi Ragnarssyni organista.
Sunnudaginn 9. ágúst kl. 14 verða svo þrír herramenn með tónleika, þeir Eyjólfur Eyjólfsson tenór, sem jafnframt leikur á langspil, Hugi Jónsson baritón og Kári Allansson, sem leikur á harmóníum og orgel. Yfirskrift tónleika þeirra er Baðstofan og kirkjuloftið, en þeir munu m.a. flytja tónlist af nýútkominni plötu þeirra Huga og Kára, Kvöldbæn.
Lokatónleikar hátíðarinnar verða svo sunnudaginn 16. ágúst, sem ber upp á Maríumessu á sumri, þar sem þemað verður lofgjörð til Maríu meyjar, sem er dýrlingur kirkjunnar. Fram koma Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran, Björg Þórhallsdóttir sópran, Elísabet Waage harpa og Hilmar Örn Agnarsson harmóníum og orgel. Tónleikarnir verða samofnir uppskerumessu sem sr. Baldur Kristjánsson sóknarprestur annast.
Tónleikarnir hefjast allir kl. 14 og eru um 50 mínútna langir.
Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Menningarráði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum.
Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á lifandi og vandaða tónlistarviðburði á þessum sögufræga stað og auðga um leið tónlistarlíf á Suðurlandi.
Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Í Selvogi var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari. Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér hressingu hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.
Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vef Strandarkirkju og á Facebooksíðu hátíðarinnar.
Grein af vef Ölfuss