Frábær endurkoma Ægis í sigri á Sindra

IMG_20150808_162858Ægir sigraði Sindra 4-3 í ótrúlegum leik á Þorlákshafnarvelli í dag þar sem Ægismenn lentu 0-3 undir eftir einungis 28 mínútna leik.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti en fengu á sig mark á 11. mínútu og síðan annað þremur mínútum seinna. Eftir það virtist slokkna á Ægismönnum og Sindramenn áttu í engum vandræðum með að komast í gegnum vörn Ægis. Gestirnir sóttu grimmt og náðu síðan að bæta við þriðja markinu á 28. mínútu og lítið að frétta hjá heimamönnum.

William Daniels náði að minnka muninn fyrir Ægi undir lok fyrri hálfleiks og staðan 1-3 í hálfleik og útlitið ekkert svakalega gott.

IMG_20150808_162721Allt annað Ægislið mætti til leiks í seinni hálfleik, þvílík var breytingin á leik liðsins. Spánverjinn Ramon Torrijos Anton, sem var allt í öllu í þessum leik, minnkaði muninn í 2-3 á 53. mínútu. Þremur mínútum síðar átti hann síðan frábært skot í slána en William Daniels náði frákastinu og skallaði boltann í netið og staðan því orðin 3-3.

Ægismenn voru mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik en á 83. mínútu fékk Milan boltann við miðjubogann og lét síðan vaða á markið. Boltinn fór yfir markmann Sindra og stórglæsilegt mark staðreynd og Ægir komið í 4-3.

Fleiri urðu mörkin ekki og frábær sigur Ægis staðreynd og þar með fyrsti heimasigurinn á þessu tímabili.