Ásmundur Friðriksson, þingmaður okkar sunnlendinga, telur að ákvarðanir ríkisins að undanförnu ógni atvinnulífi í Þorlákshöfn og öðrum sjávarbyggðum. Þetta kemur fram í grein sem birtist eftir Ásmund á vefnum dfs.is.
Ég velti fyrir mér hvort sá einbeitti vilji sé enn til staðar að hækka beri veiðigjöld á uppsjávarflotann þegar þing kemur saman aftur. Það væri þá í takt við þann tvískinnung að á sama tíma ræddi Utanríkismálanefnd um það hvernig ríkissjóður gæti komið að og styrkt útgerð uppsjávarskipa í þeim mikla tekjumissi sem útgerðin verður fyrir vegna viðskiptannsins. Ákvörðun sem við Íslendingar tókum sjálfir og ógnar atvinnulífi í sjávarplássum eins og á Höfn, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Vopnafirði og víðar um land. Er það svo að það sé meirihluti fyrir því á Alþingi Íslendinga að setja hundruði starfa í uppsjávarveiðum og vinnslu í hættu með því að standa að viðskiptabanni á Rússland sem eingöngu hefur þær afleiðingar að það hittur okkur sjálf sem þjóð beint í bakið og stórskaðar hagsmuni veiða og vinnslu, sveitarfélaga og íbúa þeirra sérstaklega.
Þingmaðurinn ræðir þarna sérstaklega um áhrif veiðigjalda og viðskiptabannsins á uppsjávarveiðar. Þó svo að uppsjávarveiðar séu nú sáralitlar í Þorlákshöfn samanborið við mörg önnur byggðarlög þá er það rétt að veiðigjöld á allar fiskveiðar hafa töluverð áhrif í Þorlákshöfn.