Í byrjun þessarar viku sögðum við frá því að vinna við mótun framtíðarstefnu sveitarfélagsins væri hafin. Þessi vinna er í samvinnu við auglýsingastofuna Hvíta húsið og hóp íbúa sem buðu sig fram í stefnumótunarvinnu með sveitarfélaginu.
Einn af þeim einstaklingum sem bauð sig fram var Haukur Andri Grímsson en hann er einnig sá yngsti sem tekur þátt í vinnunni. Haukur er tvítugur ungur maður fæddur og uppalinn í höfninni og hefur verið virkur í allskyns félagsstarfi í Þorlákshöfn og má þar t.d. nefna að hann hefur verið mjög virkur fulltrúi í ungmennaráði sveitarfélagsins seinustu árin. Í starfi ungmennaráðs hefur hann komið að því að bæta samfélagið og auka framboð af viðburðum fyrir ungt fólk.
Hafnarfréttir ákvað að taka Hauk á tali að loknum fyrsta stefnumótunarfundinum þar sem okkur þótti áhugavert að vita hvers vegna hann ákvað að bjóða sig fram í þetta verkefni.
Þegar maður býr í litlu samfélagi þá er mikilvægt að taka þátt í því og reyna að bæta hluti sem mega fara betur.
En telur þú að þessi vinna við framtíðarstefnumótun sveitarfélagsins muni skila einhverju?
Þessi vinna leggst ágætlega í mig en maður verður bara að bíða og vona að eitthvað jákvætt gerist . Ég er allavega hæfilega bjartsýnn. Það þýðir enga svartsýni í svona málum.
Nú ert þú myndarlegur ungur maður á hraðri uppleið. Hvað er það sem Þorlákshöfn hefur upp á að bjóða fyrir ungt fólk? Af hverju ætti það að velja höfnina fögru?
Kostirnir eru auðvitað margir hér í Þorlákshöfn. Við erum með framúrskarandi íþróttaaðstöðu og skólakerfi í fremsta flokki. Ekki skemmir nálægðin við Reykjavík og ungt fólk getur keypt sér ódýrar eignir hér en samt starfað í nágrannasveitarfélögum.
Er eitthvað sem þú telur að þurfi að bæta svo auðveldara verði að fá ungt fólk til að flytja til Þorlákshafnar.
Að mínu mati þarf að losna við lyktina og gera eitthvað í öllum þessum húsum sem íbúðalánasjóður á og gerir ekkert í.
Við þökkum Hauki fyrir að hafa gefið sér tíma til að spjalla við okkur og erum við fullvissir um að hann eigi eftir að aðstoða sveitarfélagið við að gera samfélagið okkar enn betra en það er í dag.