Miðvikudaginn 30. september nk. kl. 20:30 munu Ómar Guðjónsson og Tómas Einarsson kynna disk sinn og halda tónleika í Ráðhúsi Ölfuss.
Gítarleikarinn Ómar Guðjónsson og kontrabassaleikarinn Tómas R. Einarsson hafa spilað saman í áratug, ýmist tveir einir eða í fjölmennari hljómsveitum. Innanlands og utan: Flatey, Djúpavík, Moskva, Andorra, Berlín, Havana, Washington DC….
Nú hafa þeir gert langþráðan draum að veruleika: að taka upp plötu þar sem þeir semja hvor fyrir annan. Þar er músíkölsk samræða æðsta markmiðið, hvort sem um er að ræða sveiflu, latíntónlist eða ballöður.
Upptakan fór fram á Kolsstöðum í Borgarfirði, á sólríkum sumardögum þar sem hvít jöklabreiða bar við augu út um upptökuglugga ásamt hrauni og blómstrandi kjarri.
Verð aðgöngumiða: 2.500 kr.