Það þarf að huga að ýmsu þegar haldin er stór samkoma líkt og unglingalandsmótið er. Nú þegar eru starfsmenn sveitarfélagsins byrjaði að huga að undirbúningi fyrir unglingalandsmótið sem haldið verður í Þorlákshöfn árið 2018.
Eitt af því sem þarf að huga að er tjaldsvæði en það eru ekki margir grasbalar í Þorlákshöfn sem geta nýst sem tjaldsvæði. Tjaldsvæðið þarf að vera á einum stað og um 8 ha. að stærð. Einnig þarf að finna stað fyrir samkomutjald.
Bæjarstjórn samþykkti í gær á fundi sínum að hefja uppbyggingu á svæðum fyrir unglingalandsmótið. Tjaldsvæðið verður á sama stað og þegar unglingalandsmótið var haldið í Þorlákshöfn árið 2008. Svæðið sem um ræðir er meðfram Nesbraut þar sem gamli flugvöllurinn var. Það svæði er þó ekki nóg stórt og til viðbótar verður svæðið vestan við veginn einnig nýtt undir tjaldsvæði. Samkomutjaldið yrði svo staðsett nyrst á því svæði sem nota á undir tjaldsvæði.