Ferð deildar Norræna félagsins í Ölfusi á vinarbæjarmót til Vimmerby

norraenafelagid
Félagar sem tóku þátt í vinarbæjarmótinu í Vimmerby í sumar. Frá vinstri: Svanhildur Helgadóttir, Halldór Sigurðsson, formaður félagsins, Ester Hjartardóttir, fráfarandi formaður, Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir, Sigríður Guðnadóttir, Sigurður Jónsson, Erna Merlen, Berglind Ósk Haraldsdóttir, Gunnsteinn Ólmarsson, bæjarstóri, Ásgerður Eiríksdóttir, Magnús Haraldsson.

Það var að kvöldi hins 30. júní að 11 ferðalangar fóru í Smárarútu í Leifsstöð. Við, ferðalangarnir vorum öll í Norræna félaginu, Ölfusdeild og vorum á leið til Vimmerby í Svíþjóð þar sem ætluðum að taka þátt í vinabæjarmóti. Væntanlegir voru gestir frá öðrum Norðurlöndum og margir þeirra eru orðnir gamlir vinir.

Við fórum með næturflugi Icelandair til Kaupmannahafnar og tókum þaðan lest og rútu til Vimmerby. Var ekki laust við að allir væru þreyttir þegar á áfangastað kom.

Þátttakendurnir hittust í Gästgivarehagen sem er svæði skáta og borðuðum utandyra sem var ágætt því veðrið var frábært og sólin skein. Okkur var boðið upp á pylsur og meðlæti, kaffi og vöfflur. Gestgjafar þeirra sem ætluðu að búa á einkaheimilum mættu á staðinn og fluttu gestina heim til sín. Við bjuggum öll þannig en ýmsir aðrir bjuggu á gistiheimilum eða hótelum.

Fimmtudaginn 2. Júlí hófst hin eiginlega dagskrá. Við snæddum morgunverð hjá gestgjöfunum en síðan hittust allir í Stadshuset en þessi dagur var dagur sveitafélgsins. Helen Nilson bauð okkur velkomin en síðan fræddi Therese Jigsved okkur um Vimmerby, skipulag og framkvæmdir.

Leif Larsson talaði um Kalmarsambandið en það samanstendur af mörgum smærri sveitarfélögum. Leif er okkur að góðu kunnur frá mótinu í Vimmerby fyrir 10 árum en þá hélt hann heljarinnar grillveislu fyrir okkur Íslendingana og fleiri mótsgesti.

Hinn finnski, Markku Lumio sagði okkur frá hvernig samsteypa sveitarfélaga í Kauhava og nágrenni hefur tekist til.

Um hádegi var fræðslu lokið og allir héldu til Astrid Lindgrens Näs sem er staðurinn þar sem Astrid ólst upp við leik og störf. Okkur var skipt í þrjá hópa. Einn hópur skoðaði nytjagarðinn, annar hópur sá sýninguna „Hela världen brinner“ og þriðji hópurinn sá sýningu um uppvaxtarár Astrid Lindgren.

Hóparnir skiptust á en eftir hádegisverðinn var stjórnarfundur Norrænu félaganna þar sem fjallað var m.a. um endurnýjun hjá deildunum.

Um kvöldið var málsverður hjá gestgjöfum.

Föstudaginn 3. júlí var farin ferð til Vestervik þar sem við skoðuðum sýningu sem hét Mars Makalös. Sumir fóru upp í turn til að dást að útsýni á meðan aðrir hvíldu lúin bein. Við sáum líka kertaverksmiðju og keyptum okkur kerti. Við snæddum hádegisverð í Veitingahúsinu Saltmagasinet. Eftir það var haldið til Vimmerby þar sem við hvíldum okkur fyrir kvöldið en þá var grillkvöld. Veðrið var yndislegt eins og alla dagana hjá þeim Svíum. Þeim var að orði að við hefðum tekið góða veðrið með okkur frá Íslandi.

Laugardeginum eyddum við með gestgjöfum. Sumir skoðuðu ýmislegt merkilegt á meðan aðrir versluðu. Um kvöldið var hátíðarkvöld í Vimmerbyparken. Þar var hinn ljúffengasti matur á boðstólum, formenn fluttu ávörp, sungnir voru þjóðsöngvar landanna og Ester, sem var að láta af störfum sem formaður félagsins, ásamt Halldóri, núverandi formanni og Gunnsteini bæjarstjóra, buðu alla velkomna til Þorlákshafnar árið 2017.

Sunnudagsmorguninn 5. júlí kvöddum við Vimmerby og héldum til Málmeyjar þar sem við ætluðum að eyða tímanum þar til við færum með kvöldvélinni til Íslands næsta dag. Við gengum um götur Málmeyjar og skoðuðum okkur um í frábæru veðri en nóttinni var eytt á hóteli þar.

Við komumst heili og höldnu heim og sæl og ánægð eftir velheppnaða ferð.

Sambandsþing Norræna félags Íslands var haldið hér í Þorlákshöfn um síðustu helgi . Þetta var samstarfsverkefni deildarinnar hér og í Hveragerði. Þingið sjálft var haldið í Versölum en kvöldverður var á Hótel Örk á laugardagskvöldinu. Nánar verður sagt frá þinginu síðar.

Ester Hjartardóttir,
fráfarandi formaður Norræna félagsins í Ölfusi.