Leggur rækt við list og líkama

sibbaÞað eru ekki mörg ár síðan Sigurbjörg Arndal Kristinsdóttir flutti til Þorlákshafnar frá Ólafsvík ásamt fjölskyldu sinni, en það hefur heldur betur gustað af henni og manni hennar, Rögnvaldi Erlingi Sigmarssyni, sérstaklega hvað við kemur líkamsrækt í bænum.

Fyrir nokkrum árum efndu þau hjónin til söngvarakeppni til að fjármagna skólahreystibraut sem komin er upp fyrir við íþróttahúsið. Sibba, eins og Sigurbjörg er jafnan kölluð, er líkamsræktarþjálfari, æfir sjálf mikið og hefur tekið þátt í fitnessmótum með góðum árangri.

Nú ætlar Sibba að sýna á sér nýja hlið. Hún hefur ekki einungis verið að rækta líkamann, heldur hefur hún einnig lagt rækt við listina og málar fallegar, stórar myndir. Sibba heldur í fyrsta skipti sýningu á myndum sínum í Gallerí undir stiganum, sýningarrými bókasafnsins í Þorlákshöfn í desember.

Sýningin opnar formlega fimmtudaginn 10. desember klukkan 18:00.

Boðið verður upp á kaffi og konfekt af tilefni opnunar og eru allir hjartanlega velkomnir.

Sýningin mun standa fram yfir áramót og er opin á opnunartíma bókasafnsins.