jana_uganda01Það er reglulega verið að færa bókasafninu bókagjafir og hefur verið tekið við bókagjöfum frá íbúum Ölfuss séu bækurnar heilar og gefnar kvaðalaust. Í haust féll bókasafninu í skaut nokkrir kassar af barnabókum á ensku. Starfsfólki leik- og grunnskólans bauðst að velja bækur fyrir skólana, en eftir voru fjölmargar sérlega vel með farnar og áhugaverðar bækur. Þegar hugleitt var hvað best væri að gera við þær, rifjaðist upp einstakt verkefni sem Jana Ármannsdóttir stofnaði til fyrr á árinu.

Jana dvaldist í byrjun árs í Uganda á vegum AUS, alþjóðaungmennaskipta þar sem hún bjó við afar frumstæðar aðstæður, aðstoðaði við ýmis störf og kenndi börnum í heimavistarskóla ensku, íþróttir og listsköpun. Með henni að störfum á heimavistinni var ensk stúlka á vegum sömu samtaka og urðu þær góðar vinkonur. Jana segir erfitt að útskýra aðstæðurnar sem þær bjuggu við, svo mjög ólíkar eru þær öllu því sem við eigum að venjast. Skólinn var rekinn er af nunnum sem héldu uppi ströngum aga. Börnin í skólanum fóru á fætur klukkan fimm á morgnana og voru að vinna og læra til klukkan fimm seinnipartinn. Þær notuðu afar frumstæðar uppeldisaðferðir þar sem börnin fengu að kenna á bambusprikum ef þau höguðu sér ekki vel og mikill munur var á uppfræðslu drengja og stúlkna.

Sækja þurfti vatn langa leið og Jana og vinkona hennar hjálpuðust að við að þrífa sig, en til þess voru þær með bala og vatn sem sótt hafði verið í brunninn. Nunnurnar höfðu fengið að gjöf frá ríkinu skemmu sem átti að nýta sem bókasafn. Aldrei hafði neitt verið gert við þetta húsnæði sem stóð autt. Leðurblökur höfðu gert sig þar heimankomnar og skilið eftir frekar andstyggileg ummerki. Þær vinkonurnar Jana og Jazz ákváðu að taka þetta verkefni á sína arma. Þær efndu til fjáröflunar hvor í sínu heimalandi þar sem þær náðu að safna uppæðum sem dugðu til þess að mála húsið, kaupa húsgögn og svo var farið að leita að bókum. Það reyndist erfitt þar sem lítið var til af fagurbókmenntum á ensku á svæðinu og það sem var fáanlegt, var mjög dýrt. Jana keypti bækur á Íslandi eftir að hún kom heim og sendi út. Vel var tekið á móti bókunum og voru börnin afar glöð að fá fallegar og ævintýralegar bækur að lesa.

Nú hefur Bæjarbókasafn Ölfuss ákveðið að styrkja þetta verkefni og gefa til þessa bókasafns í Uganda kassa fullan af fallegum barnabókum á ensku. Jana var mjög ánægð með gjöfina og veit að þær munu koma að góðum notum við að hvetja börnin til að lesa og læra ensku í gegnum yndislestur.

Grein af vef Ölfuss
BHG