Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir hlaut nýverið styrk úr Afreks- og styrktarsjóði Umf. Selfoss og Árborgar en Aðalbjörg æfir fimleika með Umf. Selfoss.
Tilkynnt var um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2015 á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands 29. desember sl. Til úthlutunar úr sjóðnum voru 2,5 milljónir.
Allt mixlið meistaraflokks fimleikadeildar Selfoss, ásamt fleirum, hlaut 60.000 kr. styrk en Aðalbjörg keppir með mixliðinu.
Liðið hefur staðið sig virkilega vel á árinu og tók það þátt á Norðurlandamóti í hópfimleikum sem fram fór í Vodafone höllinni í nóvember síðastliðnum auk þess sem liðinu gekk virkilega vel á íslenska tímabilinu síðasta vor og uppskar bikar-, deildar- og Íslandsmeistaratitla.
Við óskum Aðalbjörgu innilega til hamingju með styrkinn og þann frábæra árangur sem hún ásamt fimleikadeild Selfoss hefur náð á árinu.
Nánari upplýsingar á heimasíðu Umf. Selfoss.