„Farsímasamband á vegum úti er mikilvægur öryggisþáttur og skiptir í raun ákaflega miklu máli. Umferð um Suðurstrandarveg hefur t.d. vaxið jafnt og þétt síðustu ár en líklega væri vetrarumferð um hann meiri ef farsímasamband væri betra,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.
Bæjarstjórn Ölfuss telur mjög mikilvægt að símasamband sé alls staðar í Þrengslum og á Suðurstrandarvegi og vonast hún til þess að settir verði upp sendar á þessum vegum.
Að sögn Gunnsteins er Suðurstrandarvegur símasambandslaus frá Selvogi og vestur fyrir Festafjall. „Farsímamarkaðurinn er samkeppnismarkaður og það skýrir stöðuna að stærstum hluta,“ segir Gunnsteinn.
Sveitarfélagið hefur rætt þetta við farsímafyrirtæki og vonast til þess að bót verði á í nánustu framtíð. „Okkur finnst að fjölfarnir þjóðvegir eigi að vera innan þjónustusvæðis farsíma árið 2016.“