Þórsarar töpuðu fyrir Haukum 96-100 eftir framlengdan leik í fjórða leik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld. Þór er því komið í sumarfrí en Haukar fara áfram í undanúrslit.
Heimamenn í Þór byrjuðu leikinn af miklum krafti þar sem stigaskorið dreifðist vel milli leikmanna. Staðan í hálfleik var 54-40 Þórsurum í vil.
Þriðji leikhlutinn var aftur á móti eins slæmur hjá Þórsurum eins og fyrri hálfleikurinn var góður. Ekkert gekk upp og Haukarnir fljótir að komast aftur inn í leikinn en gestirnir unnu þriðja leikhlutann 10-26 og staðan 64-66 Haukum í vil eftir þriðja leikhluta.
Fjórði leikhlutinn var járn og skiptust liðin á forystu og mikil spenna í loftinu. Þegar fjórar sekúndur lifðu leiks og staðan 87-88 fór Halldór Garðar í þriggja stiga skot sem geigaði en brotið var á Ragga Nat undir körfunni og hann fór á vítalínuna. Raggi klikkaði á fyrra skotinu en setti niður það síðara og kom Þórsurum í framlengingu.
Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem voru sterkari í framlengingunni með hinn magnaða Kára Jónsson í broddi fylkingar og lokatölur eins og fyrr segir 96-100.
Það verður gaman að fylgjast áfram með okkar frábæra Þórs liði á næsta tímabili en liðið er nær eingöngu skipað heimastrákum úr Þorlákshöfn. Þeir eiga mikið hrós skilið fyrir skemmtilegan körfubolta sem þeir hafa sýnt í vetur og er vonandi að Þorlákshafnarbúar haldi áfram að fjölmenna á völlinn á næsta tímabili.