Ölfus fær 10 milljóna króna styrk til uppbyggingar í Reykjadal

reykjadalur01Sveitarfélagið Ölfus fékk nýverið 10 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingu í Reykjadal í Ölfusi. Reykjadalur nýtur mikilla vinsælda og hefur fjöldi ferðamanna aukist þar mikið undanfarin ár.

„Um er að ræða styrk til 5. áfanga í uppbyggingu göngustíga í Reykjadal ásamt smíði göngubrúar við nýjan hver sem opnast hefur rétt við göngustíg og veldur töluverðri hættu. Hluti styrkjar rennur til frumhönnunar á nýrri salernisaðstöðu.“ Segir á heimasíðu Sveitarfélagsins Ölfuss.

Reykjadalur er á lista Stjórnstöðvar ferðamála yfir staði þar sem brýnt er að grípa til aðgerða til að tryggja öryggi á ferðamannastöðum, því er um forgangsverkefni að ræða vegna öryggis við hveri og slits og álags á náttúru dalsins.