Myndin er tekin þegar Hjörtur S. Ragnarsson formaður Þórs afhenti landsliðskrökkunum styrkinn. Frá vinstri Sigrún Elfa, Jenný Lovísa, Halldór Garðar, Magnús Breki og Hjörtur.
Myndin er tekin þegar Hjörtur S. Ragnarsson formaður Þórs afhenti landsliðskrökkunum styrkinn. Frá vinstri: Sigrún Elfa, Jenný Lovísa, Halldór Garðar, Magnús Breki og Hjörtur.

Aðalstjórn Ungmennafélagsins Þórs í Þorlákshöfn fékk góðan styrk frá sjávarútvegsfyrirtækinu Skinney – Þinganes hf. sem er ætlað að efla afreksstarf og tryggja öflugt íþróttastarf innan félagsins. Samningur þessi er til fjögurra ára. Aðalstjórn Þórs þakkar kærlega fyrir veittan styrk en hann á eftir að koma að góðum notum og efla enn frekar það góða starf sem deildir félagsins eru að sinna.

Stjórn Þórs ákvað að verja styrknum til íþróttafólks sem var valið til keppni í landsliðum í ár og einnig að styrkja íþróttahópa sem eru að fara erlendis í æfinga- og keppnisferðir.

Fjögur ungmenni eru að keppa fyrir Íslands hönd í körfuknattleik í sumar en það eru þau Jenný Lovísa Benediktsdóttir, Sigrún Elfa Ágústsdóttir, Magnús Breki Þórðarson og Halldór Garðar Hermannsson. Jenný Lovísa lék með U15 ára liði stúlkna á alþjóðlegu móti í Danmörku en þær lentu í fjórða sæti. Þau, Sigrún Elfa og Magnús Breki, eru nú um þessar mundir að leika með liðum sínum á Norðurlandamóti í Finnlandi. Sigrún Elfa með U16 ára liðinu og Magnús Breki með U18 ára. Halldór Garðar leikur með 20 ára landsliði KKÍ sem fer á Evrópumót í Grikklandi í júlí.

Einnig fá tvær deildir styrk í hópaferðir. Annarsvegar frjálsíþróttakrakkar sem fara á Gautaborgarleika í sumar og hinsvegar meistaraflokkur Þórs í körfubolta sem fer í æfinga- og keppnisferð til Danmerkur í haust.

Stjórn Þórs óskar íþróttafólkinu til hamingju með góðan árangur og vonast til að styrkurinn hvetji þau og deildir félagsins til frekari afreka og verkefna.

Hjörtur S. Ragnarsson
Formaður Ungmennafélagsins Þórs