Í síðustu viku fengu skipverjar á humarskipinu Fróða ÁR-38 aðskotahlut í trollið. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að aðskotahluturinn voru heillegar filmur sem gætu verið frá síðari heimsstyrjöldinni. Filmurnar komu upp þegar Fróði var á veiðum á Jökuldýpi sem er um 20 sjómílur suðaustur af Snæfellsjökli.
„Já við skoðuðum þær fyrst en sáum ekkert strax. Svo þegar við fórum inn í filmubunkann þá fór maður að sjá mannsmynd,“ sagði Gísli Fannar Gylfason, skipverji á Fróða í samtali við fréttastofu RÚV. Hann hafði þó ekki grænan grun um hvað leyndist á filmunum.
Filmurnar hafa verið sendar til Kvikmyndasafns Íslands til varðveislu og til nánari skoðunar en hugsanlega eru þær úr herskipi Bandaríkjamanna sem sökk í Faxaflóa í síðari heimsstyrjöldinni.
„Þetta er svo forvitnilegt. Það hefur aldrei komið neitt viðlíka hingað inn í kvikmyndasafnið, eins og þetta. Kvikmyndir dregnar upp úr sjó. Það er í fyrsta skipti í 35 ára sögu kvikmyndasafnsins sem það gerist,“ sagði Erlendur Sveinsson, forstöðumaður Kvikmyndasafn Íslands í samtali við RÚV.
„Við erum örugglega með bíómynd. Hún er svarthvít. Það er ljóstónn á henni þannig að þetta hefur verið fullbúin sýningarkópía sem gæti kannski verið frá þess vegna stríðsárunum, eða þar á eftir. Framundir 1950,“ sagði Erlendur.