„Afgreiðslutími sá sami og í Landsbankanum“ – Nýr meirihluti bæjarstjórnar sendi bankanum bréf

„Pósturinn er í samstarfi við Landsbankann í Þorlákshöfn sem þýðir að starfsmenn Landsbankans sjá um afgreiðslu. Þar af leiðandi verður afgreiðslutími sá sami og í Landsbankanum.“ segir Brynjar Smári Rúnarsson forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins í samtali við Hafnarfréttir.

Hafnarfréttir greindu frá því í gær að Landsbankinn hefur ákveðið að stytta opnunartíma útibúsins í Þorlákshöfn um 4 klukkustundir á dag og verður bankinn og þá einnig pósthúsið opið frá 12-15 eftir breytingarnar.

Að sögn Brynjars mun Pósturinn eftir sem áður dreifa bréfum á svæðinu og sinna útkeyrslu. „Umfang útkeyrslu verður svo metið í ljósi aðstæðna hverju sinni.“

Aðspurður út í uppsetningu á Póstboxi í Þorlákshöfn segir hann engin áform um það að svo stöddu.

D-listinn í Ölfusi hefur sent Landsbankanum bréf um málið þar sem þau hvetja bankann eindregið til að endurskoða þessa ákvörðun en mikil fólksfjölgun hefur átt sér stað í Ölfusi undanfarin ár.

„Aðgerðin er í algerri mótsögn við þá gríðarlegu fólksfjölgun sem verið hefur á svæðinu síðastliðin ár og fyrirséð er að haldi áfram. Þá hefur D listinn kynnt áætlanir um kröftuga uppbyggingu atvinnulífs í Þorlákshöfn og í dreifbýli Ölfus og skýtur skerðing þjónustunnar því skökku við, nú þegar atvinna og fjölgun íbúa á landsbyggðinni er einmitt í sókn,“ segir í tilkynningu D-listans.

Þá segir að D-listinn ætli að beita sér fyrir því að aðilar sveitastjórnar og bankans setjist niður til samtals um leið og nýr meirihluti bæjarstjórnar Ölfuss fái formlegt umboð sitt í júní næstkomandi.

Bréf D-listans til Landsbankans má lesa í heild hér að neðan:

Nýkjörinn meirihluti D listans í Ölfusi mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Landsbankans að stytta afgreiðslutíma og segja upp fólki í útibúi bankans í Þorlákshöfn. Útibúið þjónustar bæði bankaviðskipti og póstþjónustu, en í gær var tilkynnt að opnunartími útibúsins yrði aðeins frá kl.12-15.

Aðgerðin er í algerri mótsögn við þá gríðarlegu fólksfjölgun sem verið hefur á svæðinu síðastliðin ár ogfyrirséð er að haldi áfram. Þá hefur D listinn kynnt áætlanir um kröftuga uppbyggingu atvinnulífs í Þorlákshöfn og í dreifbýli Ölfus og skýtur skerðing þjónustunnar því skökku við, nú þegar atvinna og fjölgun íbúa á landsbyggðinni er einmitt í sókn.

D listinn mun mælast til þess að Landsbankinn endurskoði þessa ákvörðun sína og leiti frekar leiða til að halda þjónustustiginu uppi í sívaxandi íbúabyggð. Í þeim efnum, mun D listinn beita sér fyrir því að aðilar sveitastjórnar og bankans setjist niður til samtals um leið og nýr meirihluti fær formlegt umboð sitt í júní næstkomandi.