„Það er fyrirtækið Raufarhóll sem hefur gert samning við landeigendur um leigu á hellinum og nánasta umhverfi. Á bak við fyrirtækið stendur hópur fjárfesta, til að mynda Gufupressan ehf., sem er félag í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem kenndur er við Subway.
Hallgrímur Kristinsson, talsmaður fjárfesta, segir að áætlað sé að hefja skipulagðar ferðir í hellinn í byrjun næsta árs. Fyrirhugað er að setja upp aðstöðu fyrir móttöku ferðamanna og leggja meðal annars stíg inn í hellinn og koma fyrir ljósabúnaði. Hallgrímur segir að fyrirtækið vinni að því að fá tilskilin leyfi fyrir framkvæmdum.
Í lögum um náttúruvernd er hins vegar ákvæði sem heimilar innheimtu gjalds fyrir þjónustu á friðlýstum svæðum og náttúruverndarsvæðum. Þar segir að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis geti ákveðið sérstakt gjald fyrir aðgang að svæði ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum og skal tekjum af því varið til eftirlits, lagfæringar og uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.“ Segir í frétt Rúv.