Á hverju ári stendur Ferðamálafélag Ölfuss fyrir einni lengri ferð og í ár var haldið til Flateyrar í Önundarfirði dagana 4. til 7. ágúst.
Alls tóku 14 einstaklingar þátt í ferðinni og tveir sendisveinar. Búið var að undirbúa komu okkar vel og panta gistingu en það voru María Sigurðardóttir og Böðvar Gíslason sem tóku á móti okkur með indælis súpu og áttu þau veg og vanda að skipulagningunni.
Fyrsta daginn var farið í kvöldgöngu um svæðið með leiðsögn frá heimamanni sem fræddi hópinn um aðstöðu og umfang snjóflóðsins sem féll þar fyrir rúmum 20 árum síðan.
Næsta dag var stefnan tekin á gamla þjóðleið um Klofning. En hópurinn fékk greinargóða lýsingu á þeirri leið frá staðkunnugum sem þekkti svæðið vel. Haldið var af stað í rjómablíðu.
Þegar upp var komið var tekin smá krókur til að njóta en frekar útsýnisins. En eins og oft gerist á þessum
slóðum kom þokan æðandi yfir og kom þá leiðarlýsing heimamanns að einkar góðum notum og komst allur hópurinn niður í Staðardal.
Daginn eftir fór hópurinn upp á fjallið Þorfinn sem blasir við beint á móti Flateyri. Veðurblíðan var einstök þegar hópurinn hélt inn í Valþjófsdal þaðan sem haldið var á fjallið. Kallaði sú ferð á þó nokkra svitadropa en útsýnið af þeim hluta fjallsins sem nefndur er Kista var alveg þess virði. Þegar heim var komið var slegið til veislu og lífsins notið.
Sunnudagurinn var dagur heimferðar. Sumir lögðu snemma af stað heim en aðrir bættu aðeins við með léttri göngu í hvítum sandi við Holt.
Þökkum við Maríu og Böðvari fyrir að bjóða okkur aðstöðu og leiðsögn. Hver ferð verður annarri betri.
Kær kveðja frá Ferðamálafélagi Ölfuss