Ríkisbankinn og bæjarstjórinn

Gunnar I . BirgissonNú á dögunum var útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Hafnarnes – Ver ehf í Þorlákshöfn þvingað af Landsbankanum til að selja aflaheimildir sínar til að ganga frá skuld við ríkisbankann. Samkvæmt frásögn forsvarsmanna fyrirtækisins keypti fyrirtækið aflaheimildir árið 2006 til að styrkja rekstrargrundvöll þess og tók hluta af kaupverðinu að láni hjá Landsbankanum.

Árið 2008 hrundi íslenskt efnahagslíf og á sama tíma voru aflaheimildir fyrirtækisins skertar ár frá ári, þannig að rekstrarstaða þess versnaði til muna. Mörg önnur fyrirtæki í sjávarútvegi lentu í sömu stöðu og mörg hver fengu afskriftir að hluta á skuldum sínum hjá bankastofnunum til að tryggja áframhaldandi rekstur og störf í viðkomandi byggðum. Ofan í kaupið voru lögð veiðigjöld á útgerðina sem hefur reynst meðalstórum og litlum útgerðum þungur baggi.

Hafnarnes – Ver ehf fékk aftur á móti enga miskunn hjá ríkisbankanum, sennilega vegna þess að fyrirtækið gat staðið undir skuldbindingum sínum með því að selja aflaheimildir sínar. Kannski hefði þessi aðför að fyrirtækinu ekki gengið eftir ef eigendur hefðu verið pólitískt rétt tengdir.

Eigendur fyrirtækisins hafa stundað útgerð, fiskvinnslu og verslunarrekstur í Þorlákshöfn í yfir fjóra áratugi og skapað fjölda starfa fyrir heimabyggð sína. Ríkisbankinn, Landsbankinn, hafði hagsmuni heimamann að engu í þessari aðgerð. Núna geta þeir snúið sér einbeittir og óskiptir að málaferlum gegn Borgun, þar sem þeir verða væntanlega uppvísir að sofandahætti og lélegri heimavinnu í samningunum við Borgun.

Dæmalaus framkoma bæjarstjóra Ölfuss.
Forsvarsmenn Hafnarnes – Ver ehf hafa sagt í fjölmiðlum, að engum starfsmanni hafi verið sagt upp og það standi ekki til. Eigendur fyrirtækisins hyggjast halda rekstri þess áfram þrátt fyrir þetta áfall, eins og þeir hafa gert með miklum sóma i áratugi. Um leið og sala aflaheimildanna var kunngjörð mætti bæjarstjóri Ölfuss í fjölmiðla og fór mikinn og vandaði ekki fyrirtækinu kveðjurnar. Sama gerði bæjarráð. Hann hafði þó aldrei heimsótt fyrirtækið í bæjarstjóratíð sinni né talað við forsvarsmenn fyrirtækisins um stöðuna. Þessar árásir bæjarstjórans, sem situr í umboði meirihluta bæjarstjórnar, á Hafnarnes – Ver eru mjög dapurlegar í ljósi þess að fyrirtækið hefur verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Þorlákshöfn í áratugi.

Gunnar Ingi Birgisson