Ég ólst upp á Sjálfstæðisheimili. Sveitin mín, nágrannasveitirnar og örugglega ansi margar fleiri skiptust þá, og gera að töluverðu leyti enn, í framsóknarheimili og sjálfstæðisheimili. Svo voru nokkrir kratar, eða þá kommar, sem var svona flesta daga séð í gegnum fingur sér við með þessa vinstrivitleysu.
Að alast upp á sjálfstæðisheimili þýddi viðskipti við Matkaup og Verslunarfélagið í Vík og að Massey Ferguson traktorarnir gengu fyrir olíu frá Skeljungi. Það þýddi líka heimsóknir þingmanna sjálfstæðisflokksins á fjögurra ára fresti, sparistellið og allt. Þetta breyttist í áranna rás með samruna og hagræðingarkröfum og aðrar verslanir og afurðastöðvar tóku við. Pabbi átti þung fyrstu spor inn í Kaupfélagið, vígi framsóknarmanna, sem allt í einu var eina búðin á svæðinu, og svo SS, en það hafðist. Hann kokaði líka svolítið þegar ég, nýi bóndinn, fékk betri díl og færði mig yfir í N1, áður Esso. Massinn kokaði ekki neitt, tók ekki feilpúst, það var ekki að heyra á honum að þetta væri neitt öðruvísi olía. Kannski byrjuðu þá strax að renna á mig tvær grímur, en ég var auðvitað skráð í Sjálfstæðisflokkinn og alltaf komu þingmennirnir á fjögurra ára fresti og kíktu á sparistellið.
Ég var fædd og uppalin sjálfstæðismanneskja og nennti ekkert að velta öðru fyrir mér framan af, þetta var þægilegt og kunnuglegt. En svo kom efinn, hvað ef heimurinn væri kannski ekki svona svarthvítur og „vinstri“ kannski ekki bara barbarismi, hvert stefnum við, hverjum treysti ég og og… ég skráði mig úr flokknum. Við tók skemmtilegt tímabil sem hvergi er nærri lokið, að mynda mínar eigin skoðanir í stjórnmálum og sjá mína gömlu trú gagnrýnum augum. Þetta ferli var og er rosalega skemmtilegt, pólitík þarf ekki að vera leiðinleg. Því langar mig mjög að hvetja unga fólkið, og bara alla, til að keyra upp fjörið, lesa og hlusta og kynna sér sjónarmið og stefnur allra flokka, mynda eigin skoðanir, rökræða og rífast og kjósa svo eftir eigin sannfæringu. Sem þarf ekkert endilega að vera sú sama og fyrir fjórum árum eða verða sú sama eftir fjögur ár, heimurinn breytist hratt og við með. Nemandi í Bændaskólanum var eitt sinn spurður að því hvað hefði verið best og nytsamlegast við verknámsdvölina sem fram fer á sveitabæjum, gjarnan í öðrum landshlutum en þeim sem nemandinn kemur úr, og svarið var: „Að komast að því að mamma og pabbi vita ekki ALLTAF best hvernig á að búa“ Sama gildir um pólitík, kannski finnur maður sér sama farveg í pólitík og fjölskyldan við nákvæma skoðun, en kannski ekki , og líkurnar á að allir aðilar lifi sjálfstæðar skoðanir af eru rosalega miklar. Vinstri Græni liturinn fer Ljótarstöðunum bara prýðilega. Verum sjálfstæð og kjósum.
Heiða Guðný skipar annað sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.