Anton Freyr Gunnarsson og foreldrar hans eru í helgarviðtali DV í dag þar sem þau segja frá hræðilega flugeldaslysinu sem Anton lenti í nú í byrjun árs.
„Ég veit að ég er orðinn blindur,“ var það fyrsta sem Anton hugsaði eftir að sprengjan, sem var sett saman úr sjö tertum, sprakk í andlit hans þann 4. janúar síðastliðinn.
Anton hefur á þessum sex vikum náð undraverðum bata og er sjónin að megninu komin til baka. Þá segir einnig í viðtalinu í DV að brunasárin sem hann hlaut grói vel og segja læknarnir hans það kraftaverki líkast.
Sem betur fer var sprengjan ekki rétt gerð því annars hefði hún kostað hann lífið. „Eftir á var okkur sagt að ef Anton hefði gert sprengjuna rétt þá hefði hann dáið í slysinu. Það sem bjargaði honum var að hann þjappaði ekki púðrinu eins og er yfirleitt gert. En sem betur fer hafði hann ekki vit á því,“ segir Helga móðir Antons í samtali við DV.
Hægt er að lesa allt viðtalið í helgarblaði DV en áskrifendur geta einnig lesið það allt á vef dv.is.