Þórsarar unnu virkilega mikilvægan sigur gegn Skallagrím í kvöld, 86-95, í Domino’s deildinni í körfubolta.
Mikið jafnræði var með liðunum í kvöld og skiptust þau á forystu lungan úr leiknum. Þórsarar voru sterkari í loka fjórðungnum og sigldu í höfn góðum sigri.
Tobin Carberry var frábær að vanda með 38 stig en það sem vekur athygli er að kappinn setti niður öll 18 vítin sín í leiknum, geri aðrir betur. Halldór Garðar skoraði 14 stig, Emil Karel bætti við 11 stigum, Grétar Ingi og Maciej Baginski skoruðu báðir 10 stig. Ólafur Helgi skoraði 7 stig og Ragnar 5.
Einar Árni þjálfari Þórs sagði sigurinn vera þann stærsta á tímabili í viðtali á Karfan.is í kvöld en mikil barátta er um sætin í úrslitakeppninni. Með sigrinum fer Þór í 5. sæti en næstu þrjú lið eru tveimur stigum á eftir og eiga leik til góða.
Skallagrímur féll með þessu tapi í kvöld niður í 1. deild en þeir hafa verið mjög sterkir á köflum í vetur, sem sýnir hve ótrúlega jöfn deildin er.