Ég hef reynt að skrifa hérna með jákvæðum hætti, það er þó ekki síður mikilvægt að skrifa með sanngjörnum hætti. Mál málanna í Ölfusi í dag er án efa salan á Selvogsbraut 4, oft kallað Rásarhúsið. Þetta mál hefur verið klaufaskapur frá upphafi til enda. Áður en lengra er haldið vil ég að það komi skýrt fram að ég ætla engum sem málinu tengist eitthvað illt eða annað en vilja til að gera það besta fyrir sveitarfélagið. En stundum er það bara ekki nóg, mistökin eru til að læra af þeim og þessi verða okkur vonandi ágætis lærdómur til framtíðar.
Húsið var keypt í lok árs 2015 án þess að þörf væri á eða vitað yfir höfuð til hvers það ætti að nýtast sveitarfélaginu. Fyrst er minnst á málið í fundargerð bæjarráðs frá miðjum janúar 2016, eftir að húsið var keypt, þar var vísað í heimild sem bæjarstjórn hafði gefið til kaupa á húsinu í desember sem var að vísu munnleg. Það er sérstakt að þetta virtist ekki hafa verið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi í desember og engar formlegar bókanir skriflegar um málið svo best ég viti fyrr en kaupunum er lokið. Þegar húsið var keypt var ekki gert ráð fyrir því á fjárhagsáætlun og engin fjárhagsáætlun gerð um mögulegan kostnað sem til myndi falla vegna viðgerða á húsnæðinu, sem var augljóslega þörf á. Sveitarfélagið keypti því eignina án þess að vita hvað hún kæmi til með að kosta að lokum. Það má því segja að kaupin sjálf hafi verið klúðursleg og í raun mjög óeðlileg.
Svo líður tíminn og húsið sett í auglýsingu innan sveitarfélagsins til leigu eða sölu og ekkert tekur maður meira eftir því, aldrei fór húsið í almenna auglýsingu á fasteignarsölum svo best ég viti. Hugsunin hér var að sjálfsögðu sú að gefa íbúum sveitarfélagsins fremur öðrum tækifæri á því að kaupa eða leigja húsið. En spurningin er þó hvort að það samrýmist hagsmunum sveitarfélagsins í heild sinni. Það endar þó þannig að utanaðkomandi aðilar kaupa húsið(ánægjulegt að þeir virðast lesa bæjarmiðlana) á 33 milljónir, húsið var upphaflega keypt á 30 milljónir, til baka fékk sveitarfélagið eitthvað frá tryggingunum. En að auki er sveitarfélagið búið að leggja nokkrar milljónir í viðgerðir á húsinu. Það lítur út fyrir að sveitarfélagið sé að tapa á þessum viðskiptum.
En tapið á viðskiptunum er bara einn liður, auðvitað átti aldrei að kaupa húsið í upphafi en það er víst búið og gert. Ekki var það sett í almenna sölu á fasteignarsölu líkt og eðlilegt væri og til að bæta gráu ofan á svart þá veitir sveitarfélagið lán til kaupandans að því virðist á hagstæðari kjörum en öðrum stendur til boða. Og það til aðila sem eru svo að fara í samkeppni við fyrirtæki sem nú þegar eru starfandi innan sveitarfélagsins, það er nú þegar gistirými í boði og annað í byggingu, ég veit ekki til þess að þeir aðilar hafi fengið lán frá sveitarfélaginu eða staðið það til boða yfir höfuð. Mér þykja það ekki góð skilaboð til þeirra sem eru með rekstur hér í sveitarfélaginu þegar keppinautar fá hagstæðari lán sem þú sem íbúi áttir þátt í að veita. Og það er einmitt þessi lánaþáttur sem situr hvað mest í fólki, skiljanlega, þetta eru mjög sérstök vinnubrögð þegar litið er til hlutverka sveitarfélaga og samkeppnissjónarmiða.
Það er margt sem má læra af þessu máli öllu saman. Ég vona að bæjarfulltrúar hafi gæfu til þess að læra af því og að vinnubrögðin verði betri í framtíðinni. Ég vil með þessu ekki benda á neinn umfram annan, en ábyrgðin er bæjarstjórnar. Ég er viss um að allir þeir sem komu að málinu voru að reyna að gera sitt besta, en lærdóm verðum við að draga af þessu. Vonum að það gerum við öll.
Með kveðju
Ólafur Hannesson
Greinin birtist fyrst í Bæjarlífi