Ótrúleg lokaumferð deildarinnar: Þór fær Njarðvík í heimsókn

Í kvöld fer fram síðasti leikur deildarkeppninnar í Domino’s deildinni hjá Þórsurum þegar þeir fá Njarðvíkinga í heimsókn í Icelandic Glacial höllina.

Gríðarleg spenna ríkir um það hvaða lið komast inn í úrslitakeppnina en deildin hefur sjaldan verið svona jöfn frá 4. sæti og niður í 9. sæti.

Sigri Þór leikinn í kvöld og Grindavík tapar sínum leik þá munu Þórsarar taka 4. sætið og þar af leiðandi heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Aftur á móti geta Þórsarar farið í 7. sætið með tapi í kvöld að því gefnu að Þór Akureyri vinni sinn leik. Njarðvík er í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Það er mikið í húfi fyrir bæði lið og því nauðsynlegt að hvetja drengina til sigurs gegn sterku liði Njarðvíkur. Leikurinn hefst kl. 19:15.